Fótbolti

Bjarni segir bless eftir frábært sumar

Sindri Sverrisson skrifar
Hólmar Örn Rúnarsson og Bjarni Jóhannsson stýrðu liði Njarðvíkur saman í tvö ár með góðum árangri.
Hólmar Örn Rúnarsson og Bjarni Jóhannsson stýrðu liði Njarðvíkur saman í tvö ár með góðum árangri. UMFN

Þjálfarinn þrautreyndi Bjarni Jóhannsson er hættur sem þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í fótbolta. Hann skilur við liðið í næstefstu deild eftir að hafa stýrt því til sigurs í 2. deild í sumar.

Bjarni tók við Njarðvík ásamt Hólmari Erni Rúnarssyni fyrir tæpum tveimur árum. Þeir tóku við liðinu í 2. deild en Njarðvík vann hana með sannfærandi hætti í sumar og hlaut 55 stig í 22 umferðum, skoraði langflest mörk í deildinni eða 63 og fékk einnig fæst mörk á sig eða 22.

Bjarni, sem er 64 ára gamall, hefur starfað sem þjálfari í yfir þrjá áratugi en hann byrjaði sem spilandi þjálfari Þróttar Neskaupstað, þaðan sem Bjarni er.

Bestum árangri náði hann sem þjálfari ÍBV sem hann stýrði tvívegis til Íslandsmeistaratitils og einu sinni til bikarmeistaratitils á árunum 1997-1999. Eyjamenn unnu því tvo af þremur Íslandsmeistaratitlum sínum frá upphafi undir stjórn Bjarna.

Bjarni hefur einnig þjálfað Fylki, Grindavík, Breiðablik og Stjörnuna í úrvalsdeild, sem og KA, Vestra og Tindastól í neðri deildum. Þá var hann aðstoðarlandsliðsþjálfari í tíð Eyjólfs Sverrissonar sem stýrði íslenska landsliðinu á árunum 2005-2007.

Í tilkynningu frá knattspyrnudeild Njarðvíkur er Bjarna þakkað kærlega fyrir hans framlag til félagsins og hans þátt í vexti þess.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.