Erlent

River­da­le-leikari dæmdur í lífs­tíðar­fangelsi fyrir morð á móður sinni

Atli Ísleifsson skrifar
Ryan Grantham fór með hlutverk Jeffrey í Riverdale.
Ryan Grantham fór með hlutverk Jeffrey í Riverdale.

Kanadíski leikarinn og fyrrverandi barnastjarnan Ryan Grantham hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt móður sína árið 2020.

Hinn 24 ára Grantham er meðal annars þekktur fyrir að hafa farið með hlutverk í þáttum á borð við Riverdale sem sýndir eru á Netflix, Supernatural og iZombie.

Kanadískir fjölmiðlar segja dóm hafa fallið í hæstarétti Bresku Kólumbíu í gær, en Gratham játaði að hafa skotið móður sína, Barbara White, til bana.

Ryan Grantham árið 2013.Getty

Í dómnum kemur fram að Grantham geti í fyrsta lagi sótt um reynslulausn að fjórtán árum liðnum. Chris Johnson, verjandi Grantham, segir að skjólstæðingur sinn hafi reynt eftir bestu getu að koma lífinu „aftur á réttan kjöl“, en að það sé erfitt þegar litið til þess hvað hann hafi gert.

Ætlaði að drepa Justin Trudeau

CBS segir að við aðalmeðferð hafi komið fram að leikarinn hafi skotið móður sína í höfuðið þegar hún sat og spilaði á pianó á heimili sínu. Hann hafi svo tekið upp myndband þar sem hann viðurkenndi að hafa drepið móður sína og myndaði líkið.

Ennfremur segir að næsta dag hafi Grantham safnað saman skotvopnum og Molotov-kokteilum og haft í hyggju að keyra til höfuðborgarinnar Ottawa til að drepa forsætisráðherrann Justin Trudeau. 

Hann hafi svo hætt við það og ætlað að hefja skothríð við Lions Gate Bridge í Vancouver eða í háskólanum þar sem hann stundaði nám. Hann hætti einnig við það og ákvað að gefa sig fram við lögreglu þar sem hann viðurkenndi morðið á móður sinni.

Ryan Grantham var einungis tíu ára þegar hann hóf feril sinn í myndinni The Secret of the Nutcracker.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×