Erlent

Að minnsta kosti níu látnir í mót­mælunum í Íran

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Dauði hinnar 22 ára gömlu Mahsa Jina Amini hefur vakið mikla reiði í Íran. 
Dauði hinnar 22 ára gömlu Mahsa Jina Amini hefur vakið mikla reiði í Íran.  AP

Ekkert lát er á mótmælunum í Íran en mótmælendur kveiktu í lögreglustöðvum og bílum í höfuðborginni og öðrum borgum í dag. Minnst níu eru sagðir hafa látist eftir að mótmælin brutust út um helgina og hefur ríkisstjórnin lokað á samfélagsmiðla til að reyna að koma í veg fyrir að mótmælendur nái að tala sig saman.

Tugir þúsunda hafa haldið út á götur Íran undanfarna daga til að mótmæla dauða hinnar 22 ára gömlu Mahsa Jina Amini sem lést í haldi lögreglu í síðustu viku en hún var handtekinn fyrir að fylgja ekki ströngum reglum klerkastjórnar Írans um klæðaburð.

Ríkismiðill Írans greindi frá því í vikunni að mótmælin, sem upprunalega voru í norðvesturhluta landsins  þar sem meirihluti íbúa eru Kúrdar, hafi náð að dreifa sér til að minnsta kosti þrettán borga, þar á meðal höfuðborgarinnar, Tehran.

Konur hafa meðal annars fjarlægt höfuðklúta sína og kveikt í þeim í mótmælaskyni. Þá hafa mótmælendur hrópað á götum úti og kallað eftir dauða leiðtoga Írans, Ayatollah Ali Khamenei.

Samkvæmt talningu AP fréttaveitunnar hafa að minnsta kosti níu manns látist í óeirðunum en hagsmunasamtök Kúrda segja að minnsta kosti tólf hafa látist. Fregnir hafa borist af því að öryggissveitir hafi skotið á mótmælendur en yfirvöld í Íran neita því alfarið að öryggissveitir hafi orðið mótmælendum að bana.

Að því er kemur fram í frétt Reuters virðast mótmælendur nú ráðast á öryggissveitirnar á móti. Myndbönd sem birtust í morgunsárið virðast sýna en mótmælendur kveikja í lögreglustöðvum og bílum, meðal annars í höfuðborginni.

Ríkisstjórnin hefur unnið að því að loka fyrir samfélagsmiðla á borð við Instagram og WhatsApp sem mótmælendur nota til að koma sér saman og skipuleggja frekari mótmæli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×