Innlent

„Ég skal axla ábyrgð á þessu máli“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Jóhann Páll ætlar að axla ábyrgð í stóra „fröllumálinu.“
Jóhann Páll ætlar að axla ábyrgð í stóra „fröllumálinu.“ grafík

Þingmaður í stjórnarandstöðunni ætlar að taka ábyrgð í máli sem enginn annar virðist vilja taka ábyrgð á. 

Franskar kartöflur hafa verið meira í fréttum en góðu hófi gegnir upp á síðkastið og stefnir allt í að málið verði með stærri fréttamálum þessa árs. Málið er einfalt: Eftir að Þykkvabær hætti innlendri framleiðslu á frönskum kartöflum vernda verndartollar á franskar einfaldlega ekki neitt. Fólk vill tollinn burt og lægra vöruverð. Það eru margir leikendur í málinu sem óhætt er að kalla „stóra fröllumálið.“

Þegar fréttastofa spurði fjármálaráðherra hvort hann ætlaði að afnema tollinn benti hann á matvælaráðherra.

„Þetta er ekki á mínu borði, þetta er hjá landbúnaðarráðherranum eða matvælaráðherranum,“ sagði Bjarni Benediktsson þann 9. september.

Og Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, benti á fjármálaráðherra.

Enginn virðist geta borið ábyrgð í málinu og stóra fröllumálið því farið að minna óheyrilega á þennan hér:

Karakterinn Indriði úr Fóstbræðrum spyr hver beri ábyrgð?vísir

„Og hver ber ábyrgð á ofnunum hérna? Það er alltaf eitthvað bank í þeim. Það er alltaf eins og þeir séu fullir af lofti. Hver á að hleypa því út? Á ég að gera það?“ sagði karakterinn Indriði eftirminnilega í Fóstbræðrum.

Og eins og Indriði spyr réttilega: Hver ætlar að bera ábyrgð á þessu?

„Ég skal gera það,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

„Ég ætla að axla ábyrgð á þessu máli. Ég er búinn að leggja fram breytingatillögu við fjárlagabandorm ríkisstjórnarinnar um að þessi tollur verði afnuminn. Ég held að fólkinu í landinu sé alveg nákvæmlega sama hvort það sé matvælaráðherra eða fjármálaráðherra sem hefur forgöngu um að afnema þennan toll.“

Ofboðslega einfalt mál

Þetta virðist mjög flókið mál, Bjarni bendir á Svandísi og Svandís á Bjarna. Er þetta svona rosalega flókið?

„Nei þetta er ofboðslega einfalt. Ég held að við höfum verið í svona korter að rissa upp þessa breytingatillögu. Mér finnst auðvitað vont ef að ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru komnir í einhverja störukeppni á kostnað neytenda. Við erum að tala um 76 prósenta toll. Þetta er hæsti prósentutollur á matvöru í íslensku tollskránni.“

Jóhann gerir hlé á máli sínu til að gæða sér á frönskum kartöflum.

„Ég held að þessar franskar væru svona 300 krónum ódýrari ef að þessi breyting nær fram að ganga. Og ég vona að þeir flokkar sem gefa sig út fyrir að aðhyllast frjáls alþjóðaviðskipti komi með okkur í þetta.“


Tengdar fréttir

Þurfi að laga meingallaða tolla er varða súkkulaði og franskar

Fjármálaráðherra telur óásættanlegt að erlent vinnuafl njóti ívilnana í skjóli tolla - og telur að stjórnvöld þurfi að vera virkari í að laga umhverfið að þörfum nútímans. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir borðleggjandi að tollar sem vernda enga íslenska framleiðslu verði afnumdir til að lækka verð.

Verndartollur „sem verndar einfaldlega ekki neitt“

Verndartollar á franskar kartöflur vernda nákvæmlega ekki neitt nú þegar engin innlend framleiðsla er á vörunni. Þetta segir framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda sem telur að afnám tolla myndi þýða tuga prósenta verðlækkun á matvöruna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.