Neytendur

Verndartollur „sem verndar einfaldlega ekki neitt“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. vísir/samsett

Verndartollar á franskar kartöflur vernda nákvæmlega ekki neitt nú þegar engin innlend framleiðsla er á vörunni. Þetta segir framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda sem telur að afnám tolla myndi þýða tuga prósenta verðlækkun á matvöruna.

Í gær tilkynnti matvöruframleiðandinn Þykkvabær að fyrirtækið sé hætt að framleiða franskar kartöflur eftir 36 ára sögu. Vegna þessa hefur Félag atvinnurkenda sent matvælaráðherra og fjármálaráðherra erindi og hvatt stjórnvöld til að beita sér fyrir afnámi 76 prósent tolls á franskar kartöflur. 

Tollurinn verndi ekki neitt

Framkvæmdastjóri félagsins segir að eini tilgangur tollsins hafi verið að vernda innlenda framleiðslu, en nú þegar engin innlend framleiðsla sé lengur á frönskum kartöflum verndi verndartollurinn nákvæmlega ekki neitt.

„Þessir tollar hafa alla tíð af hálfu stjórnmálamanna verið rökstuddir með því að þeir séu til að vernda innlendan landbúnað. Við höfum bent á það varðandi þennan kartöflutoll að hann verndi í raun enga innlenda landbúnaðarframleiðslu því hann verndaði fyrst og fremst þetta eina iðnfyrirtæki, Þykkvabæjar, sem notaði að verulegum hluta innflutt hráefni í sína framleiðslu. Nú þegar þeirri framleiðslu hefur verið hætt þá verndar tollurinn einfaldlega ekki neitt, er bara afskaplega hár skattur á neytendur þessarar vöru og okkur finnst bara liggja algjörlega í augum uppi að fella hann niður,“ sagði Ólafur Stephensen.

Hann segir ráðherrana ekki enn hafa svarað erindi félagsins, en telur að afnám tolla myndi þýða tuga prósenta lækkun á verði þessarar vöru.

„Það er auðvitað skylda stjórnvalda alltaf og kannski sérstaklega núna í dýrtíðinni og verðbólgunni að grípa til þeirra ráðstafana sem þeir mögulega geta til að stuðla að lægra verði á nauðsynjum og þar á meðal matvöru eins og frönskum kartöflum.“


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.