Enski boltinn

Skytturnar byrja á stór­sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arsenal skoraði fjögur í kvöld. Beth Mead var allt í öllu.
Arsenal skoraði fjögur í kvöld. Beth Mead var allt í öllu. Harriet Lander/Getty Images

Arsenal og Brighton & Hove Albion mættust í fyrsta leik ensku úrvalsdeildar kvenna í fótbolta í kvöld. Skytturnar unnu 4-0 stórsigur og byrja tímabilið af krafti.

Gestirnir frá Brighton fengu sannkallaða martraðarbyrjun en Emma Kullberg fékk beint rautt spjald á sjöundu mínútu leiksins og verkefnið gestanna nær ógerlegt eftir það. Fyrsta markið kom þó ekki fyrr en eftir rétt tæpan hálftíma.

Kim Little kom þá boltanum í netið eftir sendingu Caitlin Foord. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og staðan því 1-0 heimaliðinu í vil er liðin gengu til búningsherbergja. Síðari hálfleikur var aðeins fimm mínútna gamall þegar Stina Blackstenius tvöfaldaði forystuna eftir sendingu Beth Mead.

Mead sjálf bætti svo við tveimur mörkum áður en flautað var til leiksloka og Arsenal byrjar tímabilið því á 4-0 stórsigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×