Íslenski boltinn

Sif leggur lands­liðs­skóna á hilluna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sif Atladóttir með aðdáendum á EM 2017 í Hollandi en alls fór hún á fjögur stórmót.
Sif Atladóttir með aðdáendum á EM 2017 í Hollandi en alls fór hún á fjögur stórmót. Getty/Charlotte Wilson

Sif Atladóttir hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna. Frá þessu greindi hún á Instagram-síðu sinni í kvöld.

Hin 37 ára gamla Sif hefur spilað með íslenska landsliðinu allt frá árinu 2007. Nú, eftir 90 A-landsleiki og fjögur stórmót, fara landsliðsskórnir upp á hillu. Hún er þó hvergi nærri hætt að spila fótbolta en hún framlengdi samning sinn á Selfossi nýverið um tvö ár. Það þýðir að Sif verður orðin 39 ára gömul þegar hún hættir loks að spila.

Sif er þekkt fyrir að vera hörð i horn að taka, frábær í loftinu, með góðan leikskilning og innköst sem minna á fallbyssu. Eftir að hafa leikið með FH, KR, Þrótti Reykjavík og Val hér á landi hélt hún til Þýskalands árið 2010 þar sem hún spilaði með FC Saarbrücken í eitt tímabil.

Ári síðar gekk Sif í raðir sænska félagsins Kristianstad og var þar í áratug áður en hún kom heim og samdi við Selfoss.

Í færslu sinni á Instagram segir Sif „Ekki gráta af því eitthvað er búið, brostu af því það átti sér stað. Allt tekur sinn enda. Eftir 15 ár, 90 landsleiki og 4 stórmót þá er kominn tími á að ég hengi upp bláu treyjuna með stolt í hjarta.“

„Til ykkar allra sem hafa verið hluti af mínu ferðalagi við ég segja Takk. Ég hef gefið hjarta, líkama og sál í búninginn og hef ég borið hann með stolti. Það hefur verið minn heiður að spila fyrir ykkur. Takk fyrir mig Ísland,“ segir að endingu í færslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×