Fótbolti

Kraftaverkið að engu en bakdyrnar standa opnar

Sindri Sverrisson skrifar
Mögnuð barátta og eljusemi íslenska liðsins varð á endanum til einskis og vonbrigðin leyndu sér ekki hjá fyrirliðanum Söru Björk Gunnarsdóttur.
Mögnuð barátta og eljusemi íslenska liðsins varð á endanum til einskis og vonbrigðin leyndu sér ekki hjá fyrirliðanum Söru Björk Gunnarsdóttur. Getty/Patrick Goosen

Himnarnir grétu í Utrecht í kvöld, með tilheyrandi þrumum og eldingum, og tárin féllu sömuleiðis niður íslenska vanga eftir að draumurinn um að stelpurnar okkar kæmust á HM í fyrsta sinn varð ekki að veruleika.

Það er ekkert óeðlilegt við að tapa gegn Hollandi á útivelli, einu besta landsliði heims, fyrir framan hátt í tuttugu þúsund appelsínugula stuðningsmenn sem sköpuðu frábæra stemningu.

Tapið var hins vegar eins sárt og það getur orðið því eftir að íslenska fleyið hafði stolt staðið af sér storm og stórsjó, þannig að með hreinum ólíkindum var, náði Holland að skora eitt „ógeðslegt“ mark, eins og Sveindís Jane Jónsdóttir orðaði það, í uppbótartíma.

Áður en að Hollendingar komu loksins boltanum í netið var maður farinn að trúa á kraftaverk. Að eldingu gæti lostið sjö sinnum niður á sama stað, sama kvöld.

Næstum því inn á HM út á baráttu og grimmd

Það var nefnilega algjört kraftaverk að Vivianne Miedema og vinkonur hennar næðu ekki að skora nokkur mörk í fyrri hálfleik. Íslenska liðið virtist ætla að sýna það að hægt væri að komast á HM bara á hreinræktaðri íslenskri baráttu og grimmd, því þessir eiginleikar ásamt umtalsverðri heppni og heimsklassa varnarframmistöðu nokkurra leikmanna, voru það eina sem kom í veg fyrir að rosalegir yfirburðir Hollendinga skiluðu mörkum.

Vinstri vængur íslenska liðsins réði gjörsamlega ekki neitt við að verjast Hollandi í fyrri hálfleiknum og heimakonur fengu endalaust af góðum fyrirgjafastöðum til að mata sína stórkostlegu sóknarmenn. Sú breyting frá síðasta leik að setja Svövu Rós Guðmundsdóttur inn í stað Amöndu Andradóttur, sem kom ekkert við sögu í gær, heppnaðist ekki.

Einhvern veginn náði Ísland þó, með Glódísi Perlu Viggósdóttur og Söndru Sigurðardóttur fremstar í flokki, að halda hreinu fram að hléi. Marksúlur íslenska marksins skulfu samt og Guðrún Árnadóttir náði að bjarga á marklínu eitt sinn.

Sandra Sigurðardóttir átti algjörlega stórkostlegan leik og var niðurbrotin í lokin því hún var staðráðin í að vinna sig inn á HM í kvöld.Getty

Málin löguðust til muna fyrir Ísland í seinni hálfleiknum og eftir því sem leið á hann fylltist trú allra á að Ísland kæmist á HM. Danielle van de Donk, sem var svo erfið viðureignar í fyrri hálfleiknum, fór fljótlega út af og við það minnkaði ógnin af hollenska liðinu.

Sveindís fékk gullið tækifæri

Og Ísland fékk líka besta færi leiksins þegar Gunnhildur Yrsa gaf fyrir á Sveindísi Jane Jónsdóttur en henni brást bogalistin. En þegar vel var liðið á uppbótartíma og lokaflautið lá í loftinu endaði fyrirgjöf Hollendinga einhvern veginn í netinu og allt varð gjörsamlega vitlaust á vellinum í appelsínugulri alsælu, á meðan að vonbrigðin voru algjör hjá Íslandi.

Það verður að ítreka að Sandra og miðverðir íslenska liðsins geta verið afar stolt af sínu, þó að Glódís kenni sjálfri sér um markið, sem er ósanngjarnt mat þó að líklega hafi það verið sjálfsmark. 

Glódís Perla Viggósdóttir reyndi að verjast Stefanie van der Gragt í skallaeinvígi en af henni fór boltinn í netið þegar níutíu sekúndur voru til leiksloka. Glódís hafði átt stjörnuleik fram að því.Getty/Rico Brouwer

Sandra átti raunar ógleymanlega frammistöðu í leik sem allir, og hún þar á meðal, vilja núna gleyma. En það má bara ekki gleymast hversu ótrúlega góð hún var í leiknum og hvernig hún er gjörsamlega búin að fara fram úr öllum væntingum með frammistöðu sinni, bæði á EM og í öðrum leikjum, sérstaklega í kvöld, eftir öll þessi ár sem hún þurfti að vera á bekknum í landsleikjum. Hún á svo sannarlega skilið að spila á HM.

Sárið opið en vonin lifir

Það vill enginn hugsa um eitthvað umspil núna. Sárið er enn opið og það þarf tíma til að jafna sig á vonbrigðum eins og í kvöld, sjálfsagt mestu vonbrigðum sem sumir leikmanna íslenska liðsins hafa upplifað.

En í umspilinu bíður Íslands viðráðanlegri andstæðingur en Holland, vonin um að komast á HM er enn mikil, og ef heppnin verður með Íslandi á föstudaginn varðandi það að fá heimaleik í umspilinu er ekki vafi á því að stelpurnar okkar gætu enn flogið á HM næsta sumar.


Tengdar fréttir

„Ætla að fá að líða smá illa“

„Erfitt að segja, bara frekar tómlegt og skrítið, grátlegt,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir aðspurð hvaða tilfinningar bærust henni í brjósti eftir súrt tap Íslands í Hollandi í kvöld. Með jafntefli hefði Ísland tryggt sér farseðilinn á HM sumarið 2023 en sigurmarkið kom þegar aðeins 90 sekúndur voru til leiksloka.

Svona er umspilið sem Ísland fer í

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er enn mögulega aðeins einum leik frá því að komast á HM í Eyjaálfu næsta sumar. Liðið leikur í umspili eftir tapið sárgrætilega gegn Hollandi í Utrecht í kvöld.

„Ég er bara í áfalli“

„Við ætlum á HM,“ segir Sveindís Jane Jónsdóttir eftir grátlegt 1-0 tap Íslands fyrir Hollandi í undankeppni HM 2023 í kvöld. Holland skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og sendi Ísland í umspil.

Einkunnir Íslands: Sandra maður leiksins

Ísland tapaði með afar svekkjandi hætti, 1-0 fyrir Hollandi í undankeppni HM ytra. Sigurmark Hollands kom í uppbótartíma og þýðir að Ísland fer ekki beint á HM heldur í umspil.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.