Fótbolti

„Ætla að fá að líða smá illa“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir gaf allt sem hún átti í leikinn.
Sara Björk Gunnarsdóttir gaf allt sem hún átti í leikinn. Vísir/Jónína

„Erfitt að segja, bara frekar tómlegt og skrítið, grátlegt,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir aðspurð hvaða tilfinningar bærust henni í brjósti eftir súrt tap Íslands í Hollandi í kvöld. Með jafntefli hefði Ísland tryggt sér farseðilinn á HM sumarið 2023 en sigurmarkið kom þegar aðeins 90 sekúndur voru til leiksloka.

„Við vorum grátlega nálægt þessu. Ótrúlegt hvernig þetta gerst á nokkrum sekúndum. Auðvitað lágu þær á okkur allan seinni hálfleik en mér fannst við hafa verið með tak á þeim. Sá fram á að við myndum tryggja okkur beint á HM og ná að klára þetta þannig það var mjög sárt að sjá boltann í netinu.“

„Það var enginn ótti í liðinu,“ sagði Sara Björk aðspurð út í slakan fyrri hálfleik íslenska liðsins.

„Við vorum alltof langt frá þeim, þær voru hreyfanlegar á miðjunni og við náðum ekki að klukka þær. Áttum bara ekki góðan fyrri hálfleik, vorum heppnar að hafa ekki fengið mark á okkur. Svo tókum við okkur saman í andlitinu í seinni hálfleik, þéttum inn á miðjuna og leyfðum þeim að fá kantana í fyrirgjafir. Vörðumst ótrúlega vel þannig, það auðveldaði varnarleikinn. Þegar við unnum boltann í fyrri hálfleik höfðum við enga orku til að sækja þannig að fyrri hálfleikur var mjög erfiður fyrir okkur en okkur leið betur í seinni hálfleik,“ bætti Sara Björk við.

Fyrirliðinn var spurð út í frammistöðu Söndru Sigurðardóttur í marki Íslands en hún fékk 10 í einkunn hjá Íþróttadeild Vísis.

„Hún var hreint ótrúleg. Svakalegar vörslur og hversu örugg hún var. Hélt okkur algjörlega inn í þessum leik.“

„Já, ég nenni ekki að hugsa um það núna. Ætla að fá að líða smá illa og, ég veit það ekki. Nenni ekki að hugsa um það núna, eða kannski í næstu viku,“ sagði Sara Björk að lokum er hún var spurð út í umspilið sem bíður Íslands.

Klippa: Sara Björk eftir tapið grátlega í Hollandi

Tengdar fréttir

„Vorum grát­lega ná­lægt þessu“

Það voru þung skref sem Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, tók er hann kom og ræddi við blaðamenn eftir grátlegt tap Íslands í lokaleik liðsins í undankeppni HM.

„Ég er bara í áfalli“

„Við ætlum á HM,“ segir Sveindís Jane Jónsdóttir eftir grátlegt 1-0 tap Íslands fyrir Hollandi í undankeppni HM 2023 í kvöld. Holland skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og sendi Ísland í umspil.

„Þær eru með gott lið en við áttum skilið að vinna“

Vivianne Miedema, framherji hollenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var eðlilega í skýjunum eftir að liðið tryggði sér sæti á HM á kostnað íslenska liðsins í kvöld og segir að sigurinn hafi verið verðskuldaður.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.