Erlent

Fundu líkamsleifar í Eystrasalti

Samúel Karl Ólason skrifar
Talið er að sjálfstýring flugvélarinnar hafi haldið henni á lofti þar til hún varð eldsneytislaus.
Talið er að sjálfstýring flugvélarinnar hafi haldið henni á lofti þar til hún varð eldsneytislaus. Flightradar24

Líkamsleifar hafa fundist í sjónum í Eystrasalti þar sem einkaþota brotlenti um helgina. Brak hefur einnig fundist en mikil óvissa ríkir varðandi það hvað leiddi til þess að flugvélin hrapaði í hafið.

Flugvélin var af gerðinni Cessna 551 og var verið að fljúga henni frá Spáni til Köln í Þýskalandi á sunnudaginn. Fjórir farþegar voru um borð en einkaþotan var í eigu þýsks auðjöfurs en óljóst er hve margir voru í áhöfninni.

Zeit Online hefur eftir öðrum þýskum miðlum að auðjöfurinn, eiginkona hans, dóttir þeirra og maður hennar hafi verið um borð.

Skömmu eftir flugtak á Spáni höfðu yfirvöld þar samband við Frakka um að áhöfn flugvélarinnar hefði lent í vandræðum með þrýsting þar um borð. Á engum tímapunkti náðist samband við áhöfn flugvélarinnar eða farþega og sögðu flugmenn orrustuþota sem sendar voru til móts við hana að þeir hefðu enga hreyfingu séð um borð.

Fregnum erlendis ber að vísu ekki saman um hvort engin hreyfing sást eða hvort enginn sást í flugstjórnarklefa flugvélarinnar. En hafi loftþrýstingur fallið í flugvélinni er mögulegt að móða eða frost hafi lagst á rúður flugvélarinnar en hún var í um 36 þúsund feta hæð, eins og sjá má á gögnum Flightradar24.

Flugvélin hélt sömu hæð mest alla flugferðina og flug rakleiðis yfir flugvöllinn í Köln. Að endingu hrapaði hún í Eystrasaltið skammt undan ströndum Lettlands.

SVT hefur eftir talskonu sjóhers Lettlands að líkamsleifar sem hafa fundist hafi verið sendar til rannsóknar svo hægt sé að bera kennsl á þær.

Brak úr flugvélinni hefur einnig fundist og stendur til að hefja leit neðansjávar í dag. Talið er að flugvélin liggi á botninum þar sem hún hrapaði í sjóinn og stendur meðal annars til að nota dróna til að leita að henni og flugritum hennar, svokölluðum svörtum kössum.

Þó ekkert liggi fyrir með vissu þykir líklegast að liðið hafi yfir áhöfn og farþega flugvélarinnar skömmu eftir flugtak. Sjálfstýring flugvélarinnar hafi flogið henni í átt að Köln og áfram, þar til hún varð eldsneytislaus. Þá hafi hún hrapaði í hafið á miklum hraða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.