Erlent

Á fjórða tug almennra borgara féll í sprengjuárás

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þrjátíu og fimm féllu í sprengingunni og enn fleiri særðust.
Þrjátíu og fimm féllu í sprengingunni og enn fleiri særðust. Getty/Olympia de Maismont

Þrjátíu og fimm almennir borgarar féllu í sprengjuárás sem gerð var í norðurhluta Búrkína Fasó í gær og þrjátíu og sjö særðust. Sprengingin varð þegar bifreið í verndarfylgd keyrði á sprengju.

Fólkið var á leið til Ouagadougou, höfuðborgar Búrkína Fasó, með birgðir en keyrði á sprengjuna á milli bæjanna Djibo og Bourzanga. Norðurhluti landsins, þar sem árásin varð, hefur þurft að glíma við uppgang íslamskra öfgahópa undanfarin ár en þeir hafa sótt í sig veðrið undanfarin misseri og fjölgað árásum á bæi, lögreglustöðvar og herstöðvar. 

Verulegir vankantar eru á öryggismálum í vesturhluta Afríku vegna uppgangs vígahópa með tengsl við al Qaeda og hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki. Þúsundir hafa fallið í árásum þeirra og meira en milljón til viðbótar þurft að yfirgefa heimili sín þrátt fyrir stöðuga hernaðarviðveru erlendra herja og friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna.

Versnandi öryggi og stöðugar árásir vígahópa leiddu til þess í janúar á þessu ári að herinn í Búrkína Fasó gerði uppreisn og steypti Roch Kabore forseta landsins af stóli. Ekkert lát hefur verið á ofbeldishrinunni þrátt fyrir það. 

Samkvæmt frétt Reuters hefur einn af hverjum tíu íbúum Búrkína Fasó þurft að flýja heimili sitt vegna mikilla átaka og matarskorts. 


Tengdar fréttir

Herinn rænir völdum í Búrkína Fasó

Herinn í Búrkína Fasó tilkynnti í gærkvöldi að hann hafi komið Roch Kabore, forseta landsis frá stóli, fellt stjórnarskrána úr gildi, leyst upp ríkisstjórnina og þingið og lokað landamærum ríkisins.

Stjórnvöld segja valdarán ekki yfirvofandi

Skothvellir heyrðust víða í nótt í Afríkuríkinu Búrkína Fasó. Meðal annars hefur skotum verið hleypt af í grennd við forsetahöll landsins en ríkisstjórnin segir þó að valdarán sé ekki yfirvofandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×