Enski boltinn

Brig­hton skoraði fimm og vann öruggan sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brighton skoraði fimm í dag.
Brighton skoraði fimm í dag. Steven Paston/Getty Images

Brighton & Hove Albion vann 5-2 sigur á Leicester City í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Leikurinn var mjög fjörugur eins og lokatölurnar gefa til kynna. Það tók gestina aðeins 53 sekúndur að brjóta ísinn. Solly March tapaði boltanum þá illa á slæmum stað, boltinn endaði hjá Patson Daka sem gaf fyrir markið á Kelechi Iheanacho og framherjinn þurfti ekki að gera annað en að renna boltanum í autt markið.

March bætti hins vegar upp fyrir mistökin þegar hann jafnaði metin með fínum skalla á 10. mínútu leiksins eftir fyrirgjöf frá Leandro Trossard. Aðeins nokkrum mínútum síðar var staðan svo orðin 2-1 Brighton í vil.

James Maddison tapaði boltanum á eigin vallarhelming og Brighton refsaði. Moises Caicedo af öllum með markið. Patson Daka jafnaði hins vegar metin áður en fyrri hálfleikur rann sitt skeið þegar hann slapp einn inn fyrir vörn Brighton eftir góða sendingu frá Youri Tielemans.

Heimamenn héldu að þeir hefðu komist yfir strax í upphafi fyrri hálfleiks þegar Alexis Mac Allister skoraði með þrumuskoti fyrir utan teig. Mark Argentínumannsins var hins vegar dæmt af þar sem það var rangstaða í aðdraganda þess.

Á 65. mínútu skoraði Trossard svo fyrir Brighton og að þessu sinni fékk markið að standa. Staðan orðin 3-2 og Mac Allister skoraði svo loks skömmu síðar þegar Brighton fékk vítaspyrnu. Staðan orðin 4-2 og virtust það ætla að verða lokatölur en undir lok leiks fengu heimamenn aukaspyrnu rúmlega 20 metrum frá marki.

Mac Allister stillti boltanum upp og smurði hann í samskeytin fjær, frábært marka í alla staði og 5-2 sigur Brighton staðreynd. Lærisveinar Graham Potter fara þar með upp í 4. sæti deildarinnar með 13 stig eftir sex umferðir á meðan Leicester er í botnsætinu með aðeins eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×