Um­fjöllun og við­töl: Leiknir R.-FH 0-0 | Viktor Freyr hetja Leiknis er hann varði víta­­­spyrnu í upp­­bótar­­tíma

Smári Jökull Jónsson skrifar
Viktor Freyr var hetja Leiknis Reykjavíkur í dag.
Viktor Freyr var hetja Leiknis Reykjavíkur í dag. Vísir/Hulda Margrét

Leiknir Reykjavík og FH gerðu markalaust jafntefli í sannkölluðum sex stiga fallslag í Bestu deild karla í dag. Gestirnir úr Hafnafirði brenndu af tveimur vítaspyrnum í leiknum.

Þá fyrri setti Steven Lennon í þverslána og þá síðari, á síðustu mínútu uppbótartíma, varði Viktor Freyr Sigurðsson markvörður Leiknis frá Birni Daníel Sverrissyni.

Fyrir leikinn voru Leiknismenn í neðsta sæti Bestu deildarinnar með 13 stig en aðeins tveimur sætum og tveimur stigum ofar sátu FH-ingar.

Heimamenn byrjuðu leikinn í dag mun betur. Þeir settu pressu á FH-inga og fengu fínt færi um miðjan hálfleikinn þegar Zean Dalügge skaut yfir markið eftir fyrirgjöf frá hægri. Annars sköpuðu Leiknismenn sér lítið af færum og í raun leit ekkert dauðafæri dagsins ljós í fyrri hálfleiknum.

FH vann sig betur inn í leikinn eftir því sem á leið án þess þó að leikur þeirra næði einhverjum alvöru hæðum. Sóknarlega voru þeir hægir og virtist sem framlengdi bikarleikurinn gegn KA á fimmtudag sæti aðeins í þeim.

Í byrjun seinni hálfleik byrjaði hins vegar fjörið. FH fékk þá nokkuð ódýra vítaspyrnu og voru heimamenn allt annað en sáttir með Vilhjálm Alvar Þórarinsson dómara, ekki síst í því ljósi að þeir vildu fá aukaspyrnu úti við hliðarlínu þegar FH vann af þeim boltann um tuttugu sekúndum áður.

Steven Lennon steig á vítapunktinn. Hann klikkaði á punktinum gegn KA á fimmtudag og hefur verið ískaldur í Bestu deildinni í sumar. Lukkan snerist honum ekki í vil í dag því hann þrumaði í þverslána á marki Leiknis og staðan því enn 0-0.

Leiknir náði að setja smá pressu á gestina síðari hluta seinni hálfleiks en alvöru marktækifæri voru af skornum skammti. FH voru þéttir í sínum varnarleik þó svo að í nokkur skipti hafi litlu mátt muna.

Þegar fimm mínútur voru síðan komnar fram yfir venjulegan leiktíma fengu FH-ingar aðra vítaspyrnu. Þá virtist vera farið í bakið á einum leikmanna FH en dómurinn virtist við fyrstu sín þó vera nokkuð ódýr.

Nú var það Björn Daníel Sverrisson sem tók boltann og setti hann á vítapunktinn. Viktor Freyr Siguðrsson í marki Leiknis gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði spyrnuna glæsilega og tryggði Leikni þar með eitt stig því flautað var til leiksloka strax í kjölfarið.

Af hverju varð jafntefli?

Einfalda svarið er: Því FH nýtti ekki vítaspyrnurnar sínar. Það er fáheyrt að misnota tvær vítaspyrnur í sama leiknum en það gerðu FH-ingar í dag og naga sig eflaust í handarbökin. Þó svo að Leiknir sé enn tveimur stigum á eftir þeim í töflunni gæti þetta orðið dýrkeypt þegar upp er staðið.

Hvorugt liðið spilaði sinn besta leik í dag. Hvorug vítaspyrnan kom upp úr einhverri frábærri sókn FH og sóknarleikur þeirra í dag var hægur og bitlaus. Varnarleikurinn var betri.

Leiknir byrjaði af krafti en Breiðhyltingar hefðu þurft að vera óhræddari að halda boltanum innan liðsins. Þeir voru oft of fljótir að reyna löngu sendinguna og gekk á köflum illa að byggja upp spil.

Þessir stóðu upp úr:

Hjá Leikni verður auðvitað að minnast á Viktor Frey Sigurðsson. Hann er ástæðan fyrir því að Leiknir missti FH ekki fimm stig fram úr sér. Fyrir utan vörsluna í lokin lék hann heilt yfir vel og greip nokkrum sinnum vel inn í. 

Birgir Baldvinsson átti fínan leik í vinstri bakverðinum og Bjarki Aðalsteinsson var traustur í vörninni.

Hjá FH var Ástbjörn Þórðarson duglegur og Oliver Heiðarsson hættulegur þegar FH sótti hratt. Davíð Snær á miðjunni átti sömuleiðis ágætan dag.

Hvað gekk illa?

Ef við tökum vítaspyrnurnar tvær út fyrir sviga þá gekk báðum liðum í raun frekar illa að skapa sér alvöru færi. Liðin komu sér oft á tíðum í ágætar stöður en náðu ekki að klára dæmið nógu vel.

Eins og áður segir var sóknarleikur FH hægur og bitlaus. Vissulega léku þeir 120 mínútna leik á fimmtudag sem sat í þeim.

Leiknismenn fengu fjölmargar hornspyrnur í dag og hefðu eflaust viljað nýta sér þær betur, sérstaklega með jafn góðan spyrnumann og Emil Berger í sínu liði.

Hvað gerist næst?

Í vikunni á Leiknir leik gegn Víkingum en það er frestaður leikur sem þau eiga inni frá því áður.

Um næstu helgi fá þeir Valsmenn í heimsókn sem eiga leik gegn Breiðabliki annað kvöld. FH fær ÍA í heimsókn í Kaplakrika næstkomandi sunnudag í öðrum sex stiga leik í fallbaráttunni.

Viktor Freyr: Ákvað bara að halda mig við sama horn og það virkaði fínt

Viktor Freyr sýndi frábæra takta þegar hann varði vítaspyrnu Björns Daníels Sverrissonar í uppbótartíma leiksins í dag.Vísir/P. Cieslikiewicz

Viktor Freyr Sigurðsson varði vítaspyrnu Björns Daníels Sverrissonar í uppbótartíma í dag og bjargaði þar með stigi fyrir Leikni.

„Við fórum náttúrulega inn í þennan leik til að vinna en úr því sem komið var þá er eitt stig bara fínt. Við hefðum alveg getað potað inn marki, við áttum fín færi og góð augnablik. Við vildum vinna þennan leik,“ sagði Viktor Freyr í samtali við Vísi eftir leik.

Það var töluvert umstang í kringum seinni vítaspyrnudóminn og töluverður tími sem leið frá því að vítaspyrnan var dæmt og þangað til hún var tekin. Hvað fer í gegnum hausinn á markvörðum á svona augnablikum?

„Ég fyrst trúði því ekki að hann væri að dæma víti, þetta var svo lítið. Það sem maður hugsar er bara að verja, það er ekkert annað. Ég er ekki að fara í markið til að fá á mig mark,“ sagði Viktor og bætti við að hann hefði ekkert undirbúið sig fyrir vítaspyrnur.

„Alls ekki. Ég var ekkert viss um að hann væri vítaskyttan þeirra, Lennon tók fyrra vítið og ég ákvað bara að halda mig við sama horn og það virkaði fínt.“

Leiknir er í bullandi fallbaráttu í Bestu deildinni og eru neðstir en þó aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti.

„Við fórum í leikinn til að vinna en það er líka fínt að missa FH ekki of langt á undan okkur. Við tökum þessu bara og höldum áfram.“

Sigurður Heiðar: Það er mikil pressa á þeim í þessari botnbaráttu

Sigurður Heiðar Höskuldsson er þjálfari Leiknismanna.Vísir/P. Cieslikiewicz

Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis var ekkert of mikið að svekkja sig á jafnteflinu gegn FH í dag en með sigri hefði Leiknir farið uppfyrir Hafnfirðinga í töflunni.

„Þeir fá tvö víti og eru örugglega svekktari en við að hafa ekki unnið leikinn. Ég hefði viljað að við hefðum verið aðeins betri. Þetta var fallbaráttuslagur og það er náttúrulega súrrealískt að lið eins og Leiknir sé í fallbaráttu gegn félagi eins og FH. Það er mikil pressa á þeim í þessari botnbaráttu,“ sagði Sigurður Heiðar við Vísi eftir leik í dag.

„Við höldum áfram, stig er stig og við erum að halda áfram að safna. Mér fannst við byrja leikinn þrusuvel, fyrstu fimmtán fannst mér við stjórna leiknum og þetta leit vel út. Svo einhvern veginn fórum við að vera hræddir við að vera með boltann, lið í fallbaráttu og það er mikið undir. Við fórum að velja leið eitt.“

Hann var þó á því að hans menn hefðu bætt sig í síðari hálfleiknum.

„Mér fannst við aðeins ná vopnum okkar aftur, þetta var kaflaskiptur síðari hálfleikur. Ég hefði viljað skora einhver mörk hérna í dag og vera aðeins graðari fyrir framan markið. Smá heppni með okkur og þá hefðum við alveg getað unnið.“

Leiknir byrjaði með fimm manna varnarlínu í dag og segir Sigurður að þetta sé taktík sem þeir hafi oft gripið til í sumar. Í síðari hálfleik færðu þeir sig hins vegar í fjögurra manna vörn.

„Við drilluðum þetta í allan vetur og höfum notað mikið í sumar. Það gekk þrusuvel gegn KR og að mörgu leyti vel gegn Blikunum líka þannig að það var engin ástæða til að breyta því. Við þurftum síðan aðeins öðruvísi áherslur í varnarleik framar á vellinum og þá þurftum við að fækka til baka og það gekk bara nokkuð vel.“

„Þegar maður er með þrjá aftast þá á að vera betra flæði aftast og við náðum því ekki alveg í dag. Það var eitthvað sem við vorum að leggja upp með og það sem við þurfum að vera betri í.“

Róbert Hauksson fór af velli vegna höfuðmeiðsla hjá Leikni en Breiðhyltingar hafa verið óheppnir að undanförnu hvað varðar slík meiðsli.

„Það voru fjórir frá vegna höfuðhöggs fyrir leik og svo fer einn útaf í dag. Við þurfum bara að díla við þetta og þeir sem spiluðu þennan leik voru bara þrusugóðir.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira