Erlent

Stjórnar­for­maður olíurisa látinn eftir fall út um sjúkra­hús­glugga

Atli Ísleifsson skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Ravil Moganov, stjórnarformaður Lukoil, árið 2019.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Ravil Moganov, stjórnarformaður Lukoil, árið 2019. Lukoil

Ravil Maganov, stjórnarformaður rússneska olíu- og gasrisans Lukoil, er látinn eftir að hafa fallið út um glugga á sjúkrahúsi í rússnesku höfuðborginni Moskvu í morgun.

Reuters og Interfax hafa þetta eftir heimildarmönnum sínum, en fréttirnar hafa ekki fengist staðfestar af opinberum aðilum. Atvikið á að hafa átt sér stað í morgun og var lögregla kölluð út á staðinn.

Reuters hefur reynt af ná tali af talsmönnum Lukoil í morgun en án árangurs. Enn liggur ekki fyrir hvort að um slys hafi verið að ræða eða ekki.

Lukoil er með höfuðstöðvar í Moskvu og er næststærsta olíufélag landsins á eftir Gazprom, og það stærsta sem ekki er í ríkiseigu. Auk þess að vera stjórnarformaður Lukoil starfaði Maganov sem aðstoðarforstjóri félagsins.

Skömmu eftir upphaf innrásar Rússlands í Úkraínu í lok febrúar síðastliðinn voru forsvarsmenn Lukoil í hópi fárra í Rússlandi sem gagnrýndu innrásina opinberlega.

Í fréttatilkynningu frá félaginu, sem send var út 3. mars, hvatti stjórn félagsins, sem Ravil Maganov hefur stýrt, til þess að stöðva þá „hörmulegu atburði sem ættu sér stað í Úkraínu“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×