Í fréttum Stöðvar 2 var sent beint út frá Deplum en bandaríska lúxusferðaþjónustan Eleven Experience hóf rekstur sveitahótelsins þar árið 2016. Þar starfa núna um 80 manns, þar af 20-25 Íslendingar, og þar er meira að segja þyrluflugmaður til taks fyrir gestina. Gistiherbergin eru þó aðeins þrettán talsins og eru dvalargestir að jafnaði í kringum 20 talsins, en fjöldi starfsmanna á hvern gest segir sitt um hátt þjónustustig.
Reksturinn lá niðri í um eitt ár þegar öllu var skellt í lás vegna covid. En hvernig hefur gengið eftir að faraldrinum lauk?

„Fólk var í raun bara æst í að fara að ferðast, eftir að hafa verið svona í einangrun. Þetta hefur í raun bara blómstrað. Við erum búin að vera fullbókuð. Og maður sér svona meiri ánægju í gestunum,“ segir Áslaug Inga Barðadóttir, hótelstjóri á Deplum.
Telja má gesti hótelsins í hópi ríkari hluta jarðarbúa. En hversvegna vilja þeir koma að Deplum?
„Ég held að það sé bara náttúrufegurðin. Að fá að vera á svona friðsælum stað og njóta. Það er enginn eitthvað að hafa afskipti af þér.“
En eiga Íslendingar að leggja meiri áherslu á lúxusferðamennsku, að fá ríkari ferðamenn til landsins? Hvað segja þau á Deplum eftir sína reynslu?
„Já, klárlega. Þetta er náttúrlega minni átroðningur. Og við erum að fá meira út úr hverjum gesti. Ég held að þetta sé klárlega framtíðin fyrir Ísland.“

-Skilja þessir ferðamenn meira eftir á Íslandi en aðrir?
„Já, ég er nokkuð viss um það.“
-Og kannski miklu meira?
„Miklu meira,“ svarar Áslaug hótelstjóri.
Í Fljótum eru hvorki stórfossar né jökullón, bara norðlenskir fjallasalir og íslensk sveit. Samt eru gestir tilbúnir til að greiða um 350 þúsund krónur fyrir nóttina á ódýrasta gistiherberginu en dýrasta herbergið á Deplum kostar um 900 þúsund krónur nóttin. Allt er innifalið, bæði matur og drykkir.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: