Innlent

Fjaðrárgljúfri lokað til 1. júní

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Aðsókn í Fjaðrárgljúfur jókst mikið eftir heimsókn tónlistarmannsins Justin Bieber árið 2015.
Aðsókn í Fjaðrárgljúfur jókst mikið eftir heimsókn tónlistarmannsins Justin Bieber árið 2015. Skjáskot
Svæðið umhverfis hið vinsæla Fjaðrárgljúfur verður lokað til 1. júní næstkomandi svo að það geti jafnað sig, eftir mikinn ágang ferðamanna. Lokunin tekur gildi á morgun klukkan 09:00.

Umhverfisstofnunin tilkynnti fyrst um lokun svæðisins við Fjaðrárgljúfur 27. febrúar síðastliðinn og átti lokunin að standa í tvær vikur. Nú þykir stofnuninni hins vegar ljóst ástand göngustígs og gróðurs við gljúfrið hafi ekki batnað frá því skyndilokunin tók gildi.

„Vegna verulegrar hættu á tjóni hefur Umhverfisstofnun því ákveðið að framlengja lokunina við Fjaðrárgljúfur til 1. júní næstkomandi, að höfðu samráði við sveitafélagið Skaftárhrepp, landeigendur, hagsmunaaðila og með staðfestingu ráðherra samkvæmt 25. gr. a. laga um náttúruvernd,“ segir í tilkynningu Umhverfisstofnunar.

Þar segir jafnframt að ekki sé loku fyrir það skotið að svæðið verð opnað fyrr, þ.e.a.s. ef svæðið verður í stakk búið „til að taka á móti gestum án þess að hætta sé á frekari skemmdum.“

Stofnunin fer þess á leit við fyrirtæki í ferðaþjónustu að þau miðli þessum upplýsingum til viðskiptavina sinna. „Ferðaþjónustan og stofnanir sem fara með umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða þurfa að standa saman vörð um náttúruna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×