Erlent

Os­car Pistorius vill fá reynslu­lausn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Osccar Pistorius myrti kærustu sína, Reevu Steenkamp, á heimili þeirra árið 2013.
Osccar Pistorius myrti kærustu sína, Reevu Steenkamp, á heimili þeirra árið 2013. EPA/Cornell Tukiri

Suðurafríski spretthlauparinn Oscar Pistorius ætlar að reyna að fá að komast úr fangelsi á reynslulausn. Pistorius skaut kærustu sína, Reeva Steenkamp, til bana árið 2013 en hann var dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir morðið.

Pistorius var um tíma besti fatlaði spretthlaupari heims og er eini spretthlauparinn sem hefur keppt bæði á Ólympíuleikunum og Ólympíuleikum fatlaðra.

Árið 2013 skaut hann kærustu sína, fyrirsætuna Reeva Steenkamp, til bana á heimili þeirra. Hún var þá á bakvið læstar dyr inn á baðherbergi þeirra og hélt Pistorius því fram að hann hafi talið hana vera innbrotsþjóf.

Pistorius hefur setið í fangelsi fyrir morðið síðan í október árið 2014 og hefur því setið inni í tæp átta ár af þrettán ára dómi. Fyrst var hann dæmdur í sex ára fangelsi fyrir morðið en áfrýjunardómstóll landsins þyngdi dóminn í þrettán ár árið 2017.

Í kjölfar þess að dómnum var breytt skapaðist mikil ringulreið í kringum fangelsisvist Pistorius. Í fyrra var ákveðið að fangelsisvist hans hafi hafist þegar hann var fyrst dæmdur árið 2014 en ekki árið 2017 þegar dómurinn var þyngdur.

Pistorius vill meina að nú hafi hann setið inni nægilega lengi til þess að geta óskað eftir reynslulausn. Hann verður þó fyrst að fá leyfi hæstarétts í Gauteng-héraði til þess að geta sótt um hana.


Tengdar fréttir

Þyngdu dóminn yfir Oscar Pistorius

Var Pist­orius dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir morðið á kærustu sinni, Reevu Steenkamp. Áður hafði hann verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir glæpinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×