Erlent

Tek­ur ekki á móti nýj­um for­sæt­is­ráð­herr­a í Buck­ing­ham-höll í fyrst­a sinn í sjö­tí­u ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Elísabet Bretadrottning er 96 ára gömul. Þetta er í fyrsta sinn á valdatíð hennar sem hún tekur ekki á móti nýjum forsætisráðherra í Buckingham-höll.
Elísabet Bretadrottning er 96 ára gömul. Þetta er í fyrsta sinn á valdatíð hennar sem hún tekur ekki á móti nýjum forsætisráðherra í Buckingham-höll. EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA

Elísabet Bretadrottning mun ekki taka á móti nýjum forsætisráðherra í Buckingham-höll í Lundúnum og er það í fyrsta sinn í sjötíu ára valdatíð drottningarinnar. Þess í stað mun nýr forsætisráðherra, hvort sem það verður Liz Truss eða Rishi Sunak sem vinnur leiðtogakjör Íhaldsflokksins, ferðast til Skotlands þann 6. september og hitta drottninguna þar.

Leiðtogakjörið fer fram þann 5. september. Þá mun Boris Johnson, fráfarandi forsætisráðherra, einnig leggja land undir fót til að hitta drottninguna áður en hann hættir.

Sem þjóðarleiðtogi Bretlands er það formlegt hlutverk drottningarinnar að skipa forsætisráðherra til að leiða ríkisstjórn Bretlands.

Hefð er fyrir því að nýr forsætisráðherra fái áheyrn drottningar í Buckingham höll áður en hann tekur við embætti. Það hefur Elísabet alltaf gert hingað til en nú verður það ekki svo. Ástæða þessa er bág heilsa Elísabetar, sem er 96 ára og hefur meðal annars átt erfitt með hreyfingu. Eru ferðalög sögð vera henni sérstaklega erfið.

Drottningin er yfirleitt í Skotlandi á þessum árstíma.

Undanfarna mánuði hefur hún, samkvæmt BBC, misst af nokkrum opinberum viðburðum vegna heilsukvilla. Hún missti til að mynda af setningu nýs þings og hluta hátíðarhalda vegna sjötíu ára valdasetu hennar.

BBC segir enn fremur að samkvæmt sérfræðingum hafi það einungis einu sinni gerst áður frá valdatíð Viktoríu drottningar, sem dó árið 1901, að nýr forsætisráðherra hafi ekki verið skipaður í Buckingham-höll. Það var árið 1908 þegar Herbert Henry Asquith ferðaðist til Biarritz í Frakklandi til að hitta Eðvarð sjöunda.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.