Enski boltinn

Casemiro: Verð sorgmæddur ef Man Utd kemst ekki í Meistaradeildina

Atli Arason skrifar
Casemiro gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Manchester United í dag.
Casemiro gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Manchester United í dag. Getty Images

Nýjasti leikmaður Manchester United, Casemiro, segir að lið af sömu stærðargráðu og Manchester United eigi skilið að spila í Meistaradeild Evrópu.

Þessi brasilíski miðjumaður kom til Manchester frá Real Madrid en spænska liðið keypti hann frá São Paulo árið 2013. Casemiro hefur því spilað reglulega í Meistaradeild Evrópu síðasta áratug en hann gat leyft sér að grínast í viðtali við ESPN aðspurður af því hvers vegna það væri ekkert stórmál að skipta yfir í félag sem spilar ekki í Meistadeild Evrópu.

„Ég hef nú þegar unnið Meistaradeildina fimm sinnum,“ sagði Casemiro og hló áður en hann bætti við.

„Auðvitað vil ég spila í Meistaradeildinni með Manchester United, þótt ég hafi unnið keppnina fimm sinnum þá er þetta mikilvægasti bikarinn í fótbolta og allir vilja vinna hann. Ef ég fæ ekki tækifæri til að spila í Meistaradeildinni með liðinu þá verð ég sorgmæddur en Manchester United er stór klúbbur sem á skilið að vera í þessari keppni.“

Casemiro var kynntur fyrir stuðningsmönnum Manchester United fyrir 2-1 sigur liðsins gegn Liverpool síðasta mánudag. Varð hann þar með fimmti leikmaðurinn sem Manchester United keypti í félagaskiptaglugganum í sumar.

„Manchester United hefur sýnt mér stuðning frá fyrsta degi. Knattspyrnustjórinn hafði mikinn áhuga á mér alveg frá því að ég hitti hann fyrst. Ég fæ sömu ást hér og ég fékk hjá Real. Tilfinningin að vera að fara að spila fyrir stórt lið í ensku úrvalsdeildinni er frábær,“ sagði Casemiro

Casemiro gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Manchester United í dag, þegar liðið fer í heimsókn til Southampton á leikvangi heilagrar Maríu í fyrsta leik fjórðu umferðar klukkan 11.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×