Erlent

Spænska þingið segir „aðeins já þýðir já“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Antonio Manuel Guerrero, einn mannanna fimm sem var dæmdur fyrir nauðgunina í Pamplona árið 2016.
Antonio Manuel Guerrero, einn mannanna fimm sem var dæmdur fyrir nauðgunina í Pamplona árið 2016. epa/Raul Caro

Spænska þingið hefur samþykkt lög sem kveða á um að hægt sé að sækja menn til saka vegna alls kynlífs sem á sér stað án þess að aðilar hafi veitt samþykki. Áður var ekki hægt að sækja menn til saka nema ef kynlífið fól í sér einhvers konar þvingun eða valdbeitingu.

Lagabreytinguna má rekja til kynferðisbrotamáls þar sem 18 ára konu var nauðgað af fimm mönnum þegar nautahlaupið í Pamplóna stóð yfir árið 2016. Mennirnir tóku árásina upp og á myndskeiði mátti sjá konuna liggja kyrra með lokuð augun á meðan þeir nauðguðu henni.

Á neðri dómstigum voru mennirnir aðeins dæmdir fyrir kynferðislega misnotkun, þar sem dómarar féllust á það sjónarmið verjenda þeirra að konan hefði ekki streyst á móti. 

Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu árið 2019 að á engum tíma hefði konan veitt samþykki fyrir kynlífinu og ástæða þess að hún hefði ekki barist á móti væri að hún hefði verið óttaslegin og ekki getað komist undan.

Hæstiréttur dæmdi mennina í 15 ára fangelsi.

Málið vakti gríðarlega athygli og reiði. Konur fagna nú hinum nýju lögum og segja þau staðfestingu á því að „aðeins já þýði já“.

Útgangspunktur laganna er að nauðgun er kynlíf án samþykkis og ítrekað er að samþykkið þarf að vera skýrt; það er ekki hægt að bera því við að einstaklingur sem er meðvitundarlítill, til dæmis sökum ölvunar, hafi gefið samþykki né heldur ef viðkomandi var sofandi, svo dæmi séu tekin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×