Erlent

Selenskí segir úkraínsku þjóðina hafa „endurfæðst“ við innrás Rússa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínskir hermenn búa sig undir árásir á Rússa í Kharkív.
Úkraínskir hermenn búa sig undir árásir á Rússa í Kharkív. AP/Andrii Marienko

Úkraínumenn eru undir það búnir að Rússar geri stórfelldar árásir í landinu í dag, þegar Úkraínumenn fagna því að 31 ár er liðið frá aðskilnaði Úkraínu frá Sovétríkjunum. Í dag eru einnig sex mánuðir liðnir frá því að innrás Rússa hófst.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði í daglegu ávarpi sínu í morgun að úkraínska þjóðin hefði endurfæðst þegar Rússar réðust inn í landið 24. febrúar síðastliðinn. 

„Þjóð sem grét ekki, öskraði eða óttaðist. Þjóð sem flúði ekki. Gafst ekki upp. Og gleymdi ekki,“ sagði forsetinn. „Hvað mun, fyrir okkur, marka endalok stríðsins? Einu sinni sögðum við: friður. Nú segjum við: sigur.“

Forsetinn sagði í gær að dagurinn í dag væri Úkraínumönnum mikilvægur. Þetta þýddi því miður að hann væri einnig mikilvægur í augum óvinar þeirra. Íbúar landsins þyrftu að búa sig undir ógeðfellda ögrun af hálfu Rússa og grimmilegar árásir.

Selenskí varaði Rússa við því að árásum yrði svarað fullum fetum og hét því að Krím yrði aftur hluti af Úkraínu.

Yfirvöld hafa bannað fjöldasamkomur í Kænugarði þar sem búist er við árásum á höfuðborgina. Fregnir hafa borist af því að margir íbúar borgarinnar hafi freistað þess að flýja.

Bandaríkjamenn hafa sagst gera ráð fyrir að Rússar muni auka árásir á borgaralega innviði og stjórnarbyggingar á næstu dögum. Bandarískir ríkisborgara hafa verið hvattir til að fara úr landi ef þeir mögulega geta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×