Fótbolti

Kórdrengir, Grindavík og Vestri með sigra í Lengjudeildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
K+ordrengir unnu góðan sigur á Selfossi í kvöld.
K+ordrengir unnu góðan sigur á Selfossi í kvöld. Vísir/Diego

Þremur leikjum í Lengjudeild karla lauk nú rétt í þessu þar sem Grindavík, Vestri og Kórdrengir unnu sigra. Grindavík vann 1-3 útisigur gegn KV, Vestri vann óvæntan 4-1 sigur gegn Fjölni og Kórdrengir lögðu Selfyssinga á útivelli, 0-1.

Það var Grímur Ingi Jakobsson sem kom KV yfir gegn Grindvíkingum stuttu fyrir hálfleikshléið, en gestirnir jöfnuðu metin á lokamínútu fyrri hálfleiksins þegar Aron Jóhannsson kom boltanum í netið.

Grindvíkingar tryggðu sér svo sigurinn með tveimur mörkum snemma í síðari hálfleik, en það voru þeir Tómas Leó Ásgeirsson og Dagur Ingi Hammer Gunnarsson sem sáu um markaskorunina í seinni hálfleik.

Grindavík situr nú í níunda sæti deildarinnar með 23 stig þegar fjórar umferðir eru eftir, 12 stigum fyrir ofan KV sem er svo gott sem fallið úr deildinni eftir úrslit kvöldsins.

Þá vann Vestri góðan 4-1 sigur gegn Fjölni þar sem Nicolaj Madsen og Pétur Bjarnason sáu um að skora mörkin í fyrri hálfleik.

Vladimir Tufegdzic kom heimamönnum í 3-0 snemma í síðari hálfleik áður en Lúkas Logi Heimisson minnkaði muninn þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Pétur Bjarnason var svo aftur á ferðinni á 76. mínútu og tryggði Vestra þar með 4-1 sigur.

Vestri situr í sjöunda sæti deildarinnar með 25 stig, en Fjölnir í því fjórða með 30 stig. tapið í kvöld þýðir einnig að Fjölnismenn eru líklega endanlega búnir að stimpla sig úr baráttunni um sæti í Bestu-deildinni.

Að lokum unnu Kórdrengir 0-1 sigur á Selfossi þar sem Loic Mbang Ondo skoraði eina mark leiksins af vítapunktinum á 27. mínútu.

Kórdrengir sitja nú í áttunda sæti deildarinnar með 24 stig, einu stigi á eftir Selfyssingum sem sitja í sjötta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×