Erlent

Rauð­panda kom eins og krafta­verk í heiminn mánuði eftir dauða föðurins

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Litli rauði, sem er samt grár, sefur vært.
Litli rauði, sem er samt grár, sefur vært. Paradise Wildlife Park

Fæðingu rauðpöndu í dýragarði í Bretlandi í síðasta mánuði hefur verið lýst sem kraftaverki. Bæði vegna þess að rauðpöndur eru í útrýmingarhættu og af því að faðir dýrsins lést fyrir mánuði síðan eftir margra ára æxlunarátak dýragarðsins.

Unginn fæddist í dýragarðinum Paradise Wildlife Park í Hertfordskíri og hefur fengið viðurnefnið „Litli rauði“ á meðan hann bíður eftir að fara í skoðun hjá dýralækni. 

Forráðamenn dýragarðsins hafa lýst fæðingu ungans sem „kraftaverki“ fyrir foreldra hans, móðurina Tilly og föðurinn Nam Pang sem lést fyrir aðeins mánuði síðan. Foreldrunum hafði verið parað saman sem hluta af alþjóðlegu æxlunarverkefni en undanfarin fjögur ár hafði þeim ekki tekist að geta barns. 

Forráðamennirnir tóku eftir því að tveimur vikum eftir dauða Nam Pang hafi Tilly farið að búa sér til hreiður.

Fullvaxta rauðpanda að klifra á grein í Oxfordskíri.Getty/Chris George

Rauðpanda, bjarnköttur eða kattbjörn

Fæðingu hans hefur verið fagnað innilega af dýraverndunarsinnum vegna þess að rauðpöndur eru í útrýmingarhættu og telur stofn þeirra aðeins um 2.500 einstaklinga í heiminum.

Önnur mynd af kraftaverka-unganum krúttlega.Paradise Wildlife Park

Rauðpöndur eru upprunalegar í Himalaja-fjöllum og suðvesturhluta Kína en stofn þeirra hefur skroppið saman vegna ágangs manna.

Þrátt fyrir að kallast rauðpöndur er tegundin skyldari þvottabjörnum og hreysiköttum en venjulegum pandabjörnum. Þess vegna er tegundin gjarnan nefnd bjarnköttur eða kattbjörn. 

Rauðpöndu-heitið er hins vegar til komið vegna þess að tegundin borðar bambus, rétt eins og svarthvítu pöndurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×