Fótbolti

Valskonur áfram í úrslitaleikinn í Slóveníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur er í beinni.
Valur er í beinni. Vísir/Diego

Íslandsmeistarar Vals unnu 2-0 sigur á armenska félaginu Hayasa í undanúrslitum undanriðils þeirra í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

Mörk Valsliðsins skoruðu þær Cyera Hintzen og Mariana Speckmaier sem skoruðu mörk liðsins í leiknum.

Riðillinn er spilaður í Slóveníu þar sem Pomurje er á heimavelli. Undnaúrsltialeikurinn í dag fór þó fram á litlum sveitavelli í Radenci í norðaustur Slóveníu.

Hintzen skoraði fyrra markið á fjórtándu mínútu eftir einstaklingsframtak þar sem hún vann boltann og labbaði í gegnum vörn Armenana.

Seinna mark Valsliðsins kom ekki fyrr en á 90. mínútu en það skoraði Speckmaier af miklu öryggi úr vítaspyrnu sem hún fékk sjálf þegar varnarmaður stöðvaði sendingu hennar með hendi.

Í úrslitaleiknum um sæti í Meistaradeildinni mætir Valsliðið sigurvegaranum úr leik Pomurje frá Slóveníu og Shelbourne frá Írlandi en þau mætast seinna í dag.

Úrslitaleikurinn fer fram á sunnudaginn kemur.

Hér fyrir neðan má sjá útsendinguna frá leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.