Innlent

Augnlæknir segir heilbrigðisyfirvöld hafa brugðist skyldu sinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Augnlæknir skoðar sjónhimnu sjúklings.
Augnlæknir skoðar sjónhimnu sjúklings. Getty

Nær 60 prósent augnlækna á Íslandi eru 60 ára eða eldri. Af þeim þrjátíu sem eru 60 ára eða eldri eru 16 komnir yfir sjötugt. Fólk getur þurft að bíða í tvö ár eftir tíu mínútna aðgerð.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Þar er rætt við Jóhannes Kára Kristinsson, augnlækni á augnlækjastöðinni Augljós, sem segir heilbrigðisyfirvöld og Sjúkratryggingar hafa brugðist skyldu sinni.

Jóhannes Kári segir augnlækna hafa verið samningslausa í fjögur ár og nýir sérfræðingar átt erfitt með að komast á samning. 

„Augnlækningar eru fag sem byggist oft eingöngu á samningum við Sjúkratryggingar, því það eru ekki allir augnlæknar sem vinna á sjúkrahúsum. Nú hafa samningar verið lausir í fjögur ár, nýir sérfræðingar úr námi hafa átt erfitt með að komast á samning og án samnings eru þeir ekki samkeppnishæfir við aðra augnlækna. Þeir geta jafnvel séð hag sínum betur borgið að verða áfram erlendis eða flytja aftur út með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi.“

Jóhannes Kári segir bið eftir augasteinsaðgerðum, sem séu oftast 10 mínútna aðgerðir, sé að verða tvö ár og tvöfalt heilbrigðiskerfi að verða til. Hann segir ástandið „bilað“.

Þá fordæmir hann að ríkisrekstri og einkarekstri sé stillt upp sem andstæðum pólum.

„Aðalmálið er að þjónustan sé góð og reksturinn sömuleiðis. Í öðru lagi þurfi að útrýma biðlistum og í þriðja lagi verði að vera almennilegt eftirlit með sérfræðingum. Við erum ekki hrædd við eftirlit og það er mikilvægt að gæði þjónustunnar séu tryggð.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.