Fótbolti

Sigurður Heiðar: „Skorti hugrekki og trú þegar á hólminn var komið"

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sigurður Heiðar Höskuldsson

Sigurður Heiðar Höskuldsson var missáttur við frammistöðu lærisveina sinna hjá Leikni Reykjavík þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Fram í Bestu deild karla í fótbolta í Úlfarsárdal í kvöld. 

„Við fáum blautar tuskur í andlitið á okkur í upphafi beggja hálfleikja en mér fannst við flottir í fyrri hálfleik. Orkustigið og skipulagið var gott í fyrri hálfleik og jafnræði með liðunum. Fyrsta markið sem við fáum á okkur var slysalegt og ekkert við því að gera," sagði Sigurður Heiðar súr en upplitsdjarfur.

„Mér fannst uppleggið okkar vera að virka vel og þeir voru ekki að skapa sér nein teljandi færi framan af leik. Við svo sem óðum ekkert í færum heldur en leikurinn var bara í góðu jafnvægi í fyrri hálfleik," sagði hann enn fremur. 

„Eftir að þeir skora tvö mörk með skömmu millibili fer þetta að slitna hjá okkur og síðasti hálftíminn var ekki góður af okkar hálfu. Mér fannst spilamennskan heilt yfir einkennast af því að við höfum verið í brasi. Það skorti trú á allar aðgerðir, við þorðum ekki að halda í boltann og taka menn á og taka frumkvæðið í leiknum.

Við verðum að laga það í framahaldinu. Það má hins vegar ekki gleyma því að við erum að spila án sjö lykilleikmanna hér í kvöld og Óttar Bjarni gat bara spilað hálfleik vegna höfuðmeiðsla sinna. 

Við munum endurheimta eitthvað af þeim leikmönnum sem voru fjarverandi í kvöld í næsta leik og þá þéttist hópurinn," sagði hann um leikinn í kvöld og næstu bardaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×