Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Breiðablik 0-2 | Blikar í úrslit Mjólkurbikarsins eftir sigur í Mjólkurbænum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Agla María Albertsdóttir skoraði fyrra mark Breiðabliks.
Agla María Albertsdóttir skoraði fyrra mark Breiðabliks. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik er á leið í úrslit Mjólkurbikars kvenna eftir 0-2 útisigur gegn Selfyssingum. Blikar eru ríkjandi bikarmeistarar og munu freista þess að verja titilinn gegn Valskonum á Laugardalsvelli.

Fyrri hálfleikurinn var fjörugur og bæði lið sköpuðu sér færi til að skora snemma leiks. Selfyssingar beittu skyndisóknum og hefðu í nokkur skipti getað komið boltanum í netið, en hættulegasta færi Selfyssinga átti þó Þóra Jónsdóttir þegar hún lét vaða af vítateigslínu og Eva Persson þurfti að hafa sig alla við til að verja skotið í horn.

Blikar voru þó öflugri aðilinn í fyrri hálfleik og fengu sín færi til þess að skora. Gestirnir sköpuðu sér yfirleitt góð færi þegar liðið fékk hornspyrnur og Selfyssingar voru líklega heppnir að ná að verjast þeim.

Fyrsta og eina mark fyrri hálfleiksins kom þó ekki eftir hornspyrnu, heldur eftir mikinn klaufagang í vörn Selfyssinga. Katla María Þórðardóttir sendi þá boltann til baka á Tiffany Sornpao í markinu sem fékk á sig pressu frá Öglu Maríu Albertsdóttur. Tiffany ætlaði að koma boltanum frá marki, en það gekk ekki betur en svo að hún þrumaði í Öglu Maríu og þaðan lak boltinn yfir línuna. Staðan var því 0-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur bauð upp á margt af því sama framan af. Selfyssingar reyndu að beita skyndisóknum, en Blikar voru meira með boltann. Bæði lið fengu ágætis færi, en inn vildi boltinn ekki.

Eftir því sem leið á síðari hálfleikinn færðu gestirnir sig aftar á völlinn og reyndu að halda í forystuna. Selfyssingar sóttu mikið seinustu tuttugu mínútur leiksins, en áttu í erfiðleikum með að skapa sér opin marktækifæri.

Það dró ekki til tíðinda fyrr en að komið var í upbótartíma þegar varamaðurinn Helena Ósk Hálfdánardóttir slapp ein í gegn og lúðraði boltanum upp í samskeytin þar sem hann fór í stöng og inn, óverjandi.

Niðurstaðan varð því 0-2 sigur bikarmeistara Breiðabliks og liðið er á leið á Laugardalsvöll þar sem úrslitaleikur gegn Val tekur við.

Af hverju vann Breiðablik?

Heilt yfir voru Blikar betri í leiknum og áttu sigurinn líklega skilinn. Selfyssingar fengu þó sín færi til að jafna metin, en liðinu hefur ekki gengið vel fyrir framan markið undanfarnar vikur og á því varð engin breyting í dag.

Hverjar stóðu upp úr?

Agla María Albertsdóttir átti mjög góðan leik í liði Blika í dag. Hún skoraði fyrra mark liðsins og í hvert einasta skipti sem hún fékk boltann framarlega á kantinum þá skapaðist hætta í kringum hana.

Í liði Selfyssinga var Sif Atladóttir fremst meðal jafningja, en þessi reynslumikli leikmaður skilaði sínu verkefni vel frá sér í bakverðinum.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að skora úr færunum sínum. Blikar fengu hvert færið á fætur öðru á nokkrum köflum í leiknum, en í flestum tilfellum var Tiffany Sornpao vandanum vaxin í markinu. Eins og áður hefur komið fram gengur bölvanlega hjá Selfyssingum að skora mörk og leikurinn í dag var framhald á þeirri sögu.

Hvað gerist næst?

Breiðablik mætir norska liðinu Rosenborg næstkomandi fimmtudag í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Næsti deildarleikur Blika er miðvikudaginn 24. ágúst gegn ÍBV, en úrslitaleikur Mjólkurbikarsins er svo þremur dögum síðar.

Næsti leikur Selfyssinga er gegn Þór/KA næstkomandi þriðjudag.

Björn: Nú þarf bara að fara að troða blöðrunni í netið

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfyssinga.Vísir/Diego

„Tilfinningin er að sjálfsögðu súr eftir þennan leik, en á sama tíma þá finn ég fyrir miklu stolti yfir því hvernig liðið mitt mætir í þennan leik og klárar hann í 90 mínútur,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfyssinga, að leik loknum.

„Mér fannst við vera með Blikana upp við vegg í mjög langan tíma í þessum leik og auðvitað sárt að það er eiginlega leikstíllinn sem ég er búinn að vera að reyna að skapa hjá þessu liði sem kannski veldur því að við fáum þetta fyrsta mark á okkur. En á sama tíma þá er þetta stórt þroskaskref hjá okkur að tengja 90 mínútur af svona mikilli orku og svona miklum gæðum. Þannig ég er mjög stoltur þó ég sé gríðarlega svekktur.“

Selfyssingar fengu klárlega færi í leiknum til að jafna metin áður en Helena Ósk kom Blikum í tveggja marka forystu í uppbótartíma eftir að Agla María hafði komið gestunum yfir eftir algjöran klaufagang í varnarleik Selfyssinga. 

„Eftir á hyggja er það kannski bara smá huggun að hafa fengið annað markið á sig í lokin og það hafi ekki bara verið þetta eina mark sem hefði skilið liðin að. Það hefði kannski verið enn þá sárara, ég veit það ekki.“

„En við fáum fullt af færum og erum búin að vera að skapa okkur helling af færum í síðustu þremur leikjum. Nú fara mörkin að hrynja inn á næstunni.“

Mörkin hafa þó ekki verið að hrynja inn undanfarið, en Björn segist þó ekki hafa neinar sérstakar skýringar á því af hverju það er.

„Við erum bara að klúðra færum. Það er útskýringin. En við erum búin að leggja auka orku í þetta síðustu vikur að skapa okkur færi og erum búin að eyða mikilli orku framan af tímabili að vera traustar með boltann og þora að halda honum. Það er bara nýtt hérna á Selfossi, þannig var það ekki. Þetta er nýr leikstíll sem liðið er að tileinka sér og svona verkefni taka tíma.“

„Nú erum við farin að skapa okkur færi og nú þarf bara að fara að troða blöðrunni í netið.“

Nú þegar Selfyssingar eru ekki lengur með í Mjólkurbikarnum verður sett full einbeiting á deildina. Þar situr liðið í sjötta sæti, en Björn segir að stefnan sé sett á að klifra hærra.

„Það er auðvitað stefnan. Við ætlum að fara að vinna leiki. Næsta markmið er Þór/KA á þriðjudaginn og það verður hörkuleikur. Við verðum að ná að púsla okkur saman fyrir þann leik,“ sagði Björn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira