Erlent

Reynd­i að ráða þjóð­ar­ör­ygg­is­ráð­gjaf­a Trumps af dög­um

Samúel Karl Ólason skrifar
John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump.
John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump. Getty/Win McNamee

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ákært íranskan hermann fyrir ráðabrugg um að að ráða John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna af dögum. Talið er að morðið hafi átt að vera hefndaraðgerð eftir að Bandaríkjamenn felldu íranskan herforingja í loftárás í Írak.

Ákærur voru opinberaðar gegn Shahram Poursafi en hann er meðlimur svokallaðra Byltingarvarða Írans, sem er valdamikil deild íranska hersins. Poursafi er sakaður um að hafa í október árið 2021, að skipan forsvarsmanna Quds-deildar Byltingarvarðanna, sem sér um aðgerðir íranska hersins á erlendri grundu, byrjað að reyna að ráða launmorðingja í Bandaríkjunum til að myrða Bolton.

Í yfirlýsingu frá forsvarsmönnum dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna segir að líklegast hafi verið um hefndaraðgerð að ræða.

Bolton var þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump en hafði hætt þegar Bandaríkjamenn réðu íranska herforingjann Qasem Soleimani af dögum árið 2020. Bolton sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann þakkaði Alríkislögreglu Bandaríkjanna fyrir og lýsti ráðamönnum í Tehran sem lygurum, hryðjuverkamönnum og óvinum Bandaríkjanna.

Poursafi er sagður hafa notað dulkóðaðar samskiptaleiðir til að bjóða launmorðingjum þrjú hundruð þúsund dali fyrir að myrða Bolton í Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna, eða í Maryland.

Hann byrjaði á því að bjóða manni fúlgur fjár fyrir myndir af Bolton, sem Poursafi sagði að væru vegna bókar. Sá maður vísaði Poursafi á annan mann og eftir viðræður við hann bauð Poursafi honum 250 þúsund dali fyrir að finna launmorðingja sem Poursafi gæti rætt við. Eftir frekari viðræður var upphæðin komin í þrjú hundruð þúsund.

Poursafi sagði að ekki skipti máli hvernig Bolton yrði myrtur en samtök hans þyrftu myndband sem staðfesti dauða þjóðaröryggisráðgjafans þáverandi.

Í nóvember 2021 spurði maðurinn Poursafi hvar hann gæti fundið Bolton.

Shahram Poursafi er nú eftirlýstur í Bandaríkjunum en hann verður líklegast aldrei framseldur frá Íran.AP/FBI

Virtist senda skilaboð frá Tehran

Poursafi sendi manninum, sem virðist hafa verið uppljóstrari fyrir Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI), skjáskot af korti þar sem finna mætti skrifstofu Boltons í Washington DC. Á skjáskotinu má sjá texta sem segir að skrifstofan sé í 10.162 kílómetra fjarlægð, sem samsvarar fjarlægðinni milli Washington DC og Tehran, höfuðborg Írans.

Í janúar lýsti Poursafi vonbrigðum yfir því að Bolton væri enn á lífi og sagði mikilvægt að hann yrði ráðinn af dögum sem fyrst. Best hefði verið að gera það á afmæli dauðadags Soleimani. Hann sendi honum einnig frekari ráðleggingar um hvernig hægt væri að myrða Bolton og sagðist undir þrýstingi frá yfirmönnum sínum.

Qassem Soleimani dó í loftárás Bandaríkjanna í Írakí byrjun árs 2020. Hann stýrði lengi Quds-deild íranska byltingarvarðarins og þar af leiðandi aðgerðum íranska hersins á erlendri grundu. Bandaríkjamenn segja hann hafa borið ábyrgð á fjölmörgum dauðsföllum bandarískra hermanna og annarra í Mið-Austurlöndum í gegnum árin.

Mike Pompeo, þáverandi utanríkisráðherra Trumps, staðhæfði einnig að árásin hefði verið gerð til að koma í veg fyrir yfirvofandi árás sem hefði sett bandaríska borgara í hættu.

Hafði annað verkefni í huga

Þann 18. janúar sendi maðurinn Poursafi opinberar upplýsingar um að Bolton yrði á ferðalagi frá Washington DC á þeim tíma sem hann vildi að maðurinn myrti þjóðaröryggisráðgjafann. Poursafi bað manninn um að bíða aðeins og innan við klukkustund síðar sagði hann að Bolton yrði ekki á ferðalagi.

Samkvæmt áðurnefndri yfirlýsingu veitti Poursafi manninum upplýsingar um dagskrá Boltons sem voru ekki aðgengilegar á opinberum vettvangi.

Nokkrum dögum síðar sagðist Poursafi hafa annað verkefni fyrir manninn, eftir að Bolton hefði verið myrtur. Þegar væri búið að safna upplýsingum um viðkomandi skotmark gaf hann í skyn að það hefði verið gert af öðrum útsendara Quds í Bandaríkjunum.

Ekkert varð þó af banatilræðinu og er búið að ákæra Poursafi. Hann stendur frammi fyrir allt að tíu ára fangelsisvist og mögulegri 250 þúsund dala sekt. Hann er þó ekki í haldi Bandaríkjamanna og verður líklegast aldrei framseldur frá Íran.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×