Í dagbók lögreglu segir að 65 ára gamall ökumaður hafi verið stöðvaður og handtekinn í gær eftir að hafa ítrekað ekið yfir gatnamót á rauðu ljósi, ekið fast upp að næstu bifreið og kveikt á sírenu og blikkljósum og loks ekið á móti umferð.
Maðurinn var látinn laus að loknum viðræðum við lögreglu og honum gert að fjarlægja ólöglegan neyðarbúnað úr bílnum.
Nokkur erill var hjá umferðarlögreglumönnum í gær en þrír ökumenn voru teknir fyrir of hraðan akstur og tveir fyrir að vera undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Þá var þrettán ára unglingur stöðvaður í Hafnarfirði en sá hafði ekið ásamt þremur félögum sínum frá Reykjanesbæ að sækja þann fjórða í Hafnarfjörð.