Fótbolti

Chelsea bauð betur en Man.City í Cucurella

Hjörvar Ólafsson skrifar
Brighton hagnast vel á kaupum og sölu sinni á Marc Cucurella. 
Brighton hagnast vel á kaupum og sölu sinni á Marc Cucurella.  Vísir/Getty

Chelsea hefur komist að samkomulagi við Brighton um kaupverð á Marc Cucurella. Enskir fjölmiðlar segja að Chelsea muni greiða rúmlega 52 milljónir punda fyrir spænska vinstri bakvörðinn.

Levi Colwill, vinstri fótar miðvörður, mun fara í hina áttina, það er frá Chelsea til Brighton en Chelsea mun eiga forkaupsrétt á honum.

Cucurella óskaði eftir því að vera settur á sölulista á föstudaginn var en hann hefur verið orðaður við Manchester City í sumar.

Pep Guardiola leitar að bakverði til þess að fylla skarð Oleksandr Zinchenko vinstra megin í varnarlínunni en Úkraínumaðurinn gekk til liðs við Arsenal.

Manchester City var reiðubúið að reiða fram 30 milljónir punda fyrir Cucurella sem kom til Brighton fyrir 15 milljónir punda síðasta sumar.

Bakvarðasveitin Cesar Azpilicueta, fyrirliði Chelsea, og Marcos Alonso eru báðir orðaðir sterklega við Barcelona

Fyrsti kostur Chelsea í vinstri bakvörðinn, Ben Chilwell, var fjarri góðu gamni vegan meiðsla lungann úr síðustu leiktíð en hann er kominn til baka inn á fótboltavöllinn.

Standist Cucurella læknisskoðun á morgun verður hann þriðji leikmaðurinn sem Thomas Tuchel bætir við leikmannahóp sinn í þessum félagaskiptaglugga en áður hefur félagið keypt Raheem Sterling og Kalidou Koulibaly.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×