Fótbolti

Gefur allan HM-gróðann sinn til góðgerðamála

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alphonso Davies fagnar marki Bayern München með Sadio Mane um helgina.
Alphonso Davies fagnar marki Bayern München með Sadio Mane um helgina. Getty/Stefan Matzke

Kanadíski landsliðsmaðurinn Alphonso Davies er mjög þakklátur fyrir hvað kanadíska þjóðin gaf honum og ætlar hann að borga til baka í vetur.

Kanadíska landsliðið er á leiðinni á sitt fyrsta heimsmeistaramót í 36 ár eða síðan að landsliðið var með í eina skiptið á HM í Mexíkó 1986.

Davies, sem spilar með stórliði Bayern München og er frægasti leikmaður landsliðsins, gaf í gær út þá yfirlýsingu að hann ætlaði að gefa allan HM-gróðann sinn til góðgerðamála.

„Kanada tók svo vel á móti mér og minni fjölskyldu og gaf mér tækifæri til að eiga betra líf,“ skrifaði Alphonso Davies á samfélagsmiðla.

„Það gaf mér tækifæri til að lifa drauma mína. Það er mikill heiður að spila fyrir Kanada og ég vil gefa til baka. Ég hef því ákveðið að ég mun gefa til góðgerðamála allt sem ég fæ fyrir að spila á HM í ár,“ skrifaði Davies.

Hinn 21 árs gamli Davies fæddist í flóttamannabúðum í Gana eftir að fjölskylda hans hafði flúið borgarastyrjöld í Líberíu. Fjölskyldan kom til Kanada þegar hann var fimm ára gamall og settist fyrst að í Edmonton.

Davies sýndi fljótt mikla hæfileika og hefur þegar spilað 32 landsleiki fyrir Kanada. Hann er með 12 mörk og 15 stoðsendingar í þeim. Davies missti af sex síðustu leikjum Kanada í undankeppninni vegna veikinda í kjölfarið á því að hafa fengið kórónuveiruna. Hann snéri aftur í apríl og var kosinn leikmaður ársins í Norður-og Mið-Ameríku.

Það á auðvitað eftir að koma í ljós hvað þetta verður mikill peningur en það fer eftir því hversu langt kanadíska landsliðið fer á mótinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.