Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Víkingur 2-2 | Bæði lið hæfilega sátt við stigið

Hjörvar Ólafsson skrifar
Víkingur gerði jafntefli við Stjörnuna í leik liðanna í dag. 
Víkingur gerði jafntefli við Stjörnuna í leik liðanna í dag.  Mynd/Cieslikiewicz

Stjarnan og Víkingur skildu jöfn, 2-2, þegar liðin áttust við í lokaleik 14. umferðar í Bestu deild karla í fótbolta á Samsung-vellinum í dag. Bæði lið hefðu sárlega þurft á stigunum að halda í toppbaráttunni.

Það var Nikolaj Hansem sem kom Víkingi yfir í upphafi seinni hálfleiks. Nikolaj skallaði boltann eftir hornspyrnu Viktors Örlyga Andrasonar og Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, náði ekki að slá boltann frá markinu.

Skömmu síðar jöfnuðu Stjörnumenn metin en Peter Oliver Ekroth varð þá fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Ísak Andri Sigurgeirsson átti þá sendingu fyrir markið og sænski miðvörðuinn skoraði sjálfsmark.

Adam var hins vegar ekki lengi í paradís hjá heimamönnum. Þegar rúmur 20 mínútur voru eftir af leiknum náði Birnir Snær Ingason forystunni á nýjan leik fyrir Víking.

Aftur skoruðu gestirnir eftir hornspyrnu Viktors Örlygs. Birnir Snær lét vaða af vítateigshorninu og aftur var Haraldur í boltanum en nú fór boltinn upp í þaknetið af höndum Haralds.

Undir lok leiksins tryggði Emil Atlason Stjörnumönnum stig. Ingvar Jónsson braut þá klaufalega á Emil sem fór á vítapunktinn sjálfur og skoraði af feykilegu öryggi.

Ágúst Þór Gylfason og Jökull Elísabetarson , þjálfarateymi Stjörnunnar.Vísir/Hulda Margrét

Águst Þór: Sáttur við karakterinn og frammistöðuna

„Mér fannst orkan í liðinu góð og við hefðum hæglega getað náð í stigin þrjú á lokamínútum leiksins. Við vorum líklegri til þess að skora sigurmarkið að mínu mati en ég er þokkalega sáttur við stigið samt," sagði Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Stjörnunnar að leik loknum. 

„Þetta var afar langþráður leikur eftir tveggja vikna hlé frá leikjum um það bil. Æfingavikan í aðdraganda leiksins var góð og við sýndum það í þessum leik að við erum í flottu standi. Þetta var flottur leikja tveggja lið sem spila nútímafótbolta," sagði Ágúst Þór enn fremur. 

„Ég er meira að horfa á frammistöðuna í leikjum frekar en að pæla hvort að við séum enn í toppbaráttu eða ekki. Við spiluðum vel í þessum leik og ég er ánægður með það. Við sýndum karakter að koma tvisvar til baka gegn sterku liði. Svo reynum við að byggja á þessari spilamennsku í komandi leikjum," sagði hann um framhaldið. 

Arnar Bergmann: Kemur í ljós í haust hvort þetta voru töpuð stig

„Ég er ekki alveg viss hvort ég meti þetta sem tvö töpuð stig eða eitt unnið. Það verður eiginlega bara að koma í ljós þegar nær dregur haustinu. Við megum ekki gleyma því að við erum að spila á erfiðum útivelli eftir mikla leikjatörn," sagði Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. 

„Þrátt fyrir mikið leikjaálag undanfarið fannst mér leikmenn liðsins ferskir og það var góð ákefð í þessum leik hjá báðum liðum. Það er hvort í senn mjög skemmtilegt og eiginlega óþolandi að spila við Stjörnuna. Þetta er lið með svipaðan leikstíl og við og liðin hafa boðið upp á tvo mjög fjöruga leiki í sumar," sagði Arnar Bergmann enn fremur. 

Nikolaj Hansen fór af velli strax í kjölfar þess að hann braut ísinn í leiknum. Arnar Bergmenn segir að veikindi hafi legið að baki þeirri skiptingu.  

„Það er í raun ótrúlegt að Nikolaj hafi getað byrjað þennan leik. Hann er búinn að vera veikur alla vikuna og ældi fyrir leik og í hálfleik. Hann fékk höfuðhögg í markinu og gat ekki haldið áfram. Annars eru allir leikmenn fyrir utan Halldór Smára meiðslalausir og ferskir fyrir komandi verkefni," sagði hann um ástandið á Víkingsliðinu. 

Arnar Bergmann Gunnlaugsson var á báðum áttum aðspurður um hvort hann væri sáttur við stigið. Vísir/Hulda Margrét

Af hverju gerðu liðin jafntefli?

Bæði lið freistuðu þess að sækja til sigurs og hefði sigurinn getað lent hvoru megin sem var. Stjarnan sýndi mikinn karakter að koma tvisvar til baka. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Sindri Þór var öflugur í hjarta varnarinnar hjá Stjörnunni og Eggert Aron Guðmunsson stóð sig vel í stöðu hægri bakvarðar. Hjá Víkingum átti Erlingur Agnarsson góðan dag fyrir utan vítaspyrnuna sem hann brenndi af. Þá var Ari Sigurpálsson síógnandi á vængnum vinstra megin. 

Hvað gekk illa?

Erlingur fékk kjörið tækifæri til þess að koma Víkingi í 2-0 en honum brást bogalistinn á vítapunktinum. Þá var brot Ingvars í jöfnunarmarki Emils úr víti algjör óþarfi þar sem lítil hætta virtist vera á ferðum. 

Hvað gerist næst?

Stjarnan sækir Fram í Úlfarsárdalinn á miðvikudaginn kemur en Víkingur fær Leikni í heimsókn í Fossvoginn. 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.