Erlent

Þúsundir kúa flattar út og urðaðar með rusli eftir að hafa drepist úr hita

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Meira en tvöþúsund nautgripir drápust í hitabylgjunni sem reið yfir Kansas í júní.
Meira en tvöþúsund nautgripir drápust í hitabylgjunni sem reið yfir Kansas í júní. Getty/Mario Tama

Þúsundir nautgripa sem drápust vegna hitabylgju í Bandaríkjunum í júní voru urðaðir í landfyllingu í Kansas. Rotnandi hræin voru fyrst flött út með þungavinnuvélum áður en þau voru urðuð með almennu rusli.

Vegna hitabylgju sem reið yfir Kansas í júní síðastliðnum drápust meira en tvö þúsund nautgripir í ríkinu samkvæmt heilbrigðiseftirliti Kansas. 

Kýr sem deyja af völdum hitaslaga eru vanalega fluttar inn í vinnslustöðvar þar sem þeim er breytt í dýrafóður eða áburð en í þetta skiptið voru allar slíkar verksmiðjur að þolmörkum komnar. 

Nautgripafyrirtæki í Kansas og fylkisstjórn Kansas sáu sér því ekki annað fært en að losa sig við hræin með því að koma þeim fyrir í landfyllingunni, segir í umfjöllun Reuters um málið.

Hræ nautgripanna minni á vatnsrúm

Að minnsta kosti 2.117 nautgripir drápust þegar hitinn fór hátt í 38 gráður, raki náði hámarki og það varð algjört logn í suðvesturhluta Kansas í júní. Slíkur hiti er óvenjulegur svona snemma á árinu enda var hluti nautgripanna enn í vetrarklæðum.

Ekki nóg með að hitinn hafi náð hátt í 38 gráður í hitabylgjunni heldur var mikill raki á sama tíma og algjört logn.Getty/John Moore

Brock Theiner, yfirmaður landfyllingarinnar í Steward-sýslu, segir að í losuninni hafi á bilinu 1.850 til tvö þúsund nautgripir verið urðaðir í landfyllingunni. 

Hann segir að starfsfólk hafi notað þungavinnuvélar með stálhjólum til að fletja nautgripahræin niður í tuttugu sentímetra áður en þau voru urðuð með rusli. Að sögn Theiner tók urðun nautgripanna næstum þrjár vikur.

„Eftir að þú keyrir yfir þau fletjast þau út, en þau þenjast aftur út,“ sagði Theiner sem lýsti útflatningu hræjanna svo á þennan ósmekklega máta: 

„[Þ]að er eins og að keyra vinnuvél ofan á vatnsrúmi. Það hreyfist.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×