Íslenski boltinn

Daninn sem Óli Jóh elskar: Búinn að ná í Lasse tvisvar á þremur mánuðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lasse Petry á tíma sínum með Val sumairð 2019.
Lasse Petry á tíma sínum með Val sumairð 2019. Vísir/Daníel Þór

Lasse Petry er orðinn leikmaður Vals á ný eftir tæpa þriggja mánaða dvöl hjá FH. Það þarf ekki að koma mikið á óvart því Ólafur Jóhannesson er tekinn við Valsliðinu á ný.

Það leynir sér ekki að Ólafur Jóhannesson er mjög hrifinn af danska miðjumanninum Lasse Petry.

Petry kom fyrst til Íslands þegar Ólafur var þjálfari Vals sumarið 2019. Hann fór frá félaginu eftir að Heimir Guðjónsson tók við liðinu.

Ólafur tók við FH á miðju tímabili í fyrra og gerði síðan nýjan samning við þetta tímabil.

Í byrjun maí þá birtist Lasse Petry í Kaplakrika og skrifaði undir sex mánaða samning við félagið.

FH lét Ólaf hins vegar fara í júní og Eiður Smári tók við. FH hafði þá aðeins náð í átta stig í fyrstu níu leikjum sínum.

Petry missti sæti sitt í byrjunarliðinu eftir á Ólafur fór en var þó í byrjunarliðinu í síðasta leik sínum með Hafnarfjarðarliðinu á móti Blikum á sunnudaginn.

Ólafur Jóhannesson hefur síðan endurheimt starf sitt hjá Val eftir að Heimir Guðjónsson var látinn fara.

Í gær var það síðan tilkynnt að Valsmenn hefðu fengið Petry frá FH.

Það þýðir að Ólafur er nú búinn að ná í Lasse tvisvar sinnum á innan við þremur mánuðum.

Petry nær líka að spila með tveimur félögum á þessu tímabili þrátt fyrir að hafa ekki byrjað tímabilið í Bestu deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.