Erlent

Minnst einn látinn í röð skotárása í Kanada

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögreglumaður stendur nærri lögreglubifreið á vettvangi skotárásar í Langley í dag.
Lögreglumaður stendur nærri lögreglubifreið á vettvangi skotárásar í Langley í dag. Ap/The Canadian Press/Darryl Dyck

Skotið var á nokkurn fjölda einstaklinga í röð skotárása í borginni Langley í Bresku-Kólumbíu í morgun að sögn kanadísku lögreglunnar. Minnst einn lést í árásunum og hefur karlmaður verið handtekinn grunaður um aðild að þeim. Langley er staðsett rétt utan við Vancouver, um 40 kílómetra suðaustur af borginni.

Um klukkan 6:15 að staðartíma var íbúum á svæðinu tilkynnt að skotárásir hafi átt sér stað á nokkrum stöðum í miðborg Langley og á einum stað í hinu nærliggjandi sveitarfélagi Langley Township. Lögreglan staðfestir við kanadíska ríkisútvarpið CBC að einn hafi verið handtekinn rétt fyrir klukkan 7, eða um 14 að íslenskum tíma. Áfram sé unnið að því að kanna hvort hinn grunaði hafi verið einn að verki.

Ekki hefur verið greint frá fjölda fórnarlamba en haft er eftir fulltrúa lögreglunnar að fólkið sé heimilislaust. Ekki er talið að skotmörkin hafi verið valin af handahófi. Í tilkynningu var hinum grunaða lýst sem hvítum karlmanni með dökkt hár sem hafi sést á hvítri bifreið. Maðurinn situr nú í gæsluvarðhaldi, af því er fram kemur í frétt CBC.

Átti sér stað á minnst þremur stöðum 

Lögreglan hefur afmarkað nokkra vettvanga í borginni með nokkra kílómetra millibili. Einn við Willowbrook-verslunarmiðstöðina, annan við Cascades-spilavítið nærri Fraser-hraðbrautinni og þann þriðja í nálægð við flóamarkað og strætóstopp við Logan-breiðstræti og Glover-veg. 

Sjá má för eftir minnst níu byssukúlur utan á svartri lögreglubifreið sem finna má við áðurnefnda verslunarmiðstöð, að sögn fréttastofu CBC.

Rétt eftir klukkan 7:20 að staðartíma, skömmu eftir að hinn grunaði var handtekinn, sendi lögreglan út aðra tilkynningu þar sem aftur var biðlað til almennings að halda sig frá miðborginni á meðan kannað væri hvort fleiri skotmenn hafi átt þátt í árásunum. Lögreglan hefur lokað vegarkafla sem liggur í gegnum miðborgina og hvatt fólk til að forðast fleiri nálæga staði. 

Ein skotárásin átti sér stað við Willowbrook verslunarmiðstöðina.Willowbrook

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×