Innlent

Segir upp­sagnir starfs­fólks greini­lega ekki lausnina við mann­eklu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Alda Margrét Hauksdóttir, formaður Félags lífeindafræðinga.
Alda Margrét Hauksdóttir, formaður Félags lífeindafræðinga. Vísir

Formaður Félags lífeindafræðinga segir Landspítalann ekki mega við því að starfsfólki fækki. Nýr formaður stjórnar spítalans sagði í dag að mögulega þyrfti að fækka starfsfólki í hagræðingarskyni.

Björn Zoëga, nýr stjórnarformaður Landspítalans, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að ekki væri útilokað að fækka þurfi starfsfólki til að mæta erfiðri fjárhagsstöðu spítalans. Það þurfi að koma í ljós á næstu mánuðum og árum á hvaða sviðum megi fækka starfsfólki. Það yrði þó líklega á stuðningssviðum, ekki starfsmenn sem vinna beint með sjúklingum.

Stjórnendur spítalans hafa undanfarin misseri kvartað mikið undan manneklu og heilbrigðisráðherra tilkynnti þá nýverið að vel kæmi til greina að lengja starfsaldur heilbrigðisstarfsfólks til 75 ára aldurs.

„Ég er alltaf jafn hissa þegar ég heyri svona athugasemdir vegna þess að það hefur verið svo mikill skortur á fjölmörgum fagstéttum þannig að þó svo að við komum ekki beint að umönnun sjúklinga þá skiptir vinna okkar allra, sem vinnum á spítalanum, og í stoðþjónustunni við, það hefur áhrif á endaniðurstöðu á meðferð sjúklinga,“ segir Alda Margrét Hauksdóttir formaður Félags lífeindafræðinga.

Margar fagstéttir spítalans megi ekki við að missa fólk, þar á meðal lífeindafræðingar.

„Það hefur ekki fjölgað þar einu einasta stöðugildi síðan 2013,“ segir Alda.

„Rannsóknum hefur fjölgað, sjúklingum hefur fjölgað, ferðamönnum hefur fjölgað og þjónusta við alla hefur aukist, aldur fólks er að hækka. Þannig að ég skil ekki hvernig hann ætlar að fara að þessu.“

Hún hvetur Björn til að kalla til allar fagstéttir á spítalanum til að fara yfir málin.

„Batinn felst ekki í að segja upp starfsfólki.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.