Íslenski boltinn

„Fullmikið drama miðað við það sem ég sagði“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Damir kveðst ekki hafa verið með dónaskap við leikmenn Podgorica.
Damir kveðst ekki hafa verið með dónaskap við leikmenn Podgorica. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Damir Muminovic, varnarmaður Breiðabliks, kveðst ekki hafa verið með mikinn dónaskap við leikmenn Buducnest Podgorica frá Svartfjallalandi eftir 2-0 sigur Blika á liðinu á Kópavogsvelli á fimmtudagskvöld. Hann hlakkar til síðari leiksins ytra.

Svartfellingarnir virðast hafa ætlað að slá Blika út af laginu með því að vera fastir fyrir en óhætt er að segja að kappið hafi borið fegurðina ofurliði. Tveir leikmenn liðsins fengu rautt spjald í leiknum, auk þjálfara liðsins.

„Ég hef ekki séð þessa hegðun áður, verð ég að viðurkenna, þó ég sé nú ekki hokinn af reynslu. En ég hef ekki upplifað á boðvangi andstæðinganna svona árásargjarna hegðun og svona mikla reiði,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks eftir leik.

Eftir að lokaflautið gall var þá gerður aðsúgur að Damir Muminovic, serbnesk-íslenskum leikmanni Blika, sem lét nokkur vel valin orð falla á tungumáli gestanna. Allt sauð upp úr í kjölfarið en Damir segir gestina hafa gert úlfalda úr mýflugu, ef litið er til orðavals hans.

„Þetta var nú bara fullmikið drama miðað við það sem ég sagði. Ég get lofað því að það var ekkert dónalegt eða neitt þannig. Ég sagði þeim bara að setjast niður þarna á bekknum. Þeir voru fullæstir fyrir minn smekk.“ segir Damir.

Aðspurður um við hverju hann búist í leiknum ytra segir Damir: „Ég býst bara við alvöru veislu. Þeir reyna örugglega að komast í hausinn á okkur en við þurfum bara að vera pollrólegir. Þetta er dálítið nýtt fyrir okkur á Íslandi að fá svona brjálaða stuðningmenn hingað og leikmenn en ég hef séð þetta áður og þetta truflar mig voða lítið.“

Síðari leikur liðanna er klukkan 18:30 næsta fimmtudagskvöld og verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport. Næsta verkefni Blika er hins vegar þegar þeir sækja FH-inga heim annað kvöld og hefst bein útsending á Stöð 2 Sport klukkan 19:00.

Ummæli Damirs má sjá í spilaranum fyrir ofan þegar um 1:30 er liðin af klippunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×