Umfjöllun,viðtöl og myndir: Víkingur - The New Saints 2-0 | Kristall bjó til gott nesti fyrir Víkinga

Andri Már Eggertsson skrifar
Kristall Máni Ingason skoraði úr báðum vítum sínum í kvöld.
Kristall Máni Ingason skoraði úr báðum vítum sínum í kvöld. vísir/diego

Víkingur vann 2-0 sigur gegn The New Saints í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í kvöld og er því í flottum málum fyrir útileikinn í næstu viku.

Kristall Máni Ingason skoraði bæði mörk Víkinga, úr vítaspyrnum. Ari Sigurpálsson krækti í fyrri vítaspyrnuna en Kristall náði sjálfur í þá seinni, við litla hrifningu gestanna.

New Saints fékk fyrsta færi leiksins eftir tæplega tveggja mínútna leik. Kyle McLagan átti þar klaufaleg mistök sem Josh Daniels nýtti sér og komst einn gegn Ingvar Jónssyni, markverði Víkings, en Ingvar gerði vel í að loka á hann og varði.

Eftir færi gestanna róaðist leikurinn. Víkingur vann sig betur inn í leikinn þegar á leið. Kristall Máni Ingason var hættulegastur hjá heimamönnum og fékk tvö góð færi til að koma heimamönnum yfir en gestirnir gerðu vel í að leysa þá pressu.

Á 27. mínútu gerðist Leo Smith brotlegur inn í eigin vítateig þar sem hann steig aftan í Ara Sigurpálsson sem var á leiðinni í skot og um vafalausa vítaspyrnu að ræða.

Hættulegasti leikmaður Víkings í leiknum Kristall Máni Ingason steig á vítapunktinn. Kristall tók lítið skopp áður en hann renndi boltanum í hægra hornið þar sem Connor Roberts, markmaður New Saints, hafði farið í vinstra hornið.

Fyrra víti Kristals þar sem hann renndi boltanum í hægra horniðVísir/Diego

Logi Tómasson var óheppinn að bæta ekki við forystu Víkings en hann fékk nokkur marktækifæri en inn fór boltinn ekki og Víkingur var einu marki yfir í hálfleik.

Dýrlingarnir gerðu eina breytingu í hálfleik. Eftir að Víkingur hafi verið með öll völd á vellinum í fyrri hálfleik brugðu gestirnir á það ráð að fara í fimm manna varnarlínu.

Þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik flautaði Peter Kralovic, dómari leiksins, aðra vítaspyrnu á New Saints. Josh Pask var í baráttunni við Kristal Mána þar sem Pask fór í boltann en virtist aðeins axla Kristal Mána sem féll við og Peter Kralovic flautaði ósanngjarna vítaspyrnu.

Seinni vítaspyrna Kristals þar sem hann renndi boltanum í vinstra horniðVísir/Diego

Kristall Máni tók vítið sjálfur og notaði sömu brellu og í fyrra vítinu þar sem hann tók létt skopp en að þessu sinni renndi hann boltanum í vinstra hornið á meðan Connor Roberts stökk í það hægra.

Gestirnir fengu færi í uppbótatíma til að minnka muninn en nýttu það ekki og þar við sat. Víkingur vann 2-0 og eru með pálmann í höndunum fyrir seinni leikinn.

Víkingar fögnuðu með sínu fólki eftir leikVísir/Diego

Af hverju vann Víkingur Reykjavík?

Gestirnir fóru illa með gott færi snemma leiks þegar leikurinn var markalaus. Eftir það stýrði Víkingur leiknum og skapaði sér haug af færum sem skilaði sér í tveimur vítaspyrnum.

Víkingur leysti vel stóra og stæðilega hafsenta New Saints með góðum hraða og var upplegg Arnars Gunnlaugssonar að þreyta andstæðinginn sem gekk upp.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristall Máni Ingason lék sinn síðasta heimaleik fyrir Víking Reykjavík. Kristall fer til Rosenborg í næsta mánuði og kvaddi Víkina með stæl. Kristall skoraði tvö mörk bæði úr vítum og fiskaði hann sjálfur síðari vítaspyrnuna.

Ingvar Jónsson, markmaður Víkings, hélt hreinu í kvöld og stóð vaktina vel milli stanganna. Ingvar varði frábærlega í upphafi leiks og þegar New Saints reyndi að ógna í föstum leikatriðum kom Ingvar oftar en ekki út og hirti boltann.

Hvað gekk illa?

Þungir og hægir varnarmenn New Saints voru í vandræðum með snögga sóknarlínu Víkings. Heimamenn stungu þá ítrekað af sem skapaði mikla hættu.

Peter Kralovic, dómari leiksins, gerði dýr mistök þegar hann flautaði vítaspyrnu í síðari hálfleik þar sem Josh Pask fór augljóslega í boltann áður en Kristall féll niður og það var nokkuð augljóst að Pask braut ekki á Kristali Mána. 

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur í Walse næsta þriðjudag klukkan 17:15.

Kristall Máni: Þetta var ódýrt víti sem ég fiskaði 

Kristall Máni skoraði tvö mörk úr vítum í kvöldVísir/Diego

Kristall Máni Ingason, leikmaður Víkings, var ánægður með sigurinn á New Saints. Þetta var síðasti heimaleikur Kristals og mun hann kveðja Víkina með söknuði.

„Við héldum hreinu og skoruðum tvö mörk. Mér fannst við heilt yfir rúlla yfir þá og það fannst mér standa upp úr,“ sagði Kristall Máni eftir leik.

Víkingur var marki yfir í hálfleik og stýrðu heimamenn umferðinni og átti New Saints í erfiðleikum með að koma sér inn í leikinn.

„Við héldum boltanum vel og létum hann ganga hratt. Þeir fóru að þreytast og við hefðum getað refsað þeim með fleiri mörkum þar sem við fengum færi til þess.“

Kristall Máni fiskaði afar umdeilda vítaspyrnu í síðari hálfleik og fannst honum snertingin ekki mikil.

„Þetta var ódýrt víti en það var kominn tími til að maður fengi eins og eina vítaspyrnu þar sem það hefur oft verið sparkað í mig fastar en þetta.“

Kristall Máni lék sinn síðasta heimaleik með Víkingi Reykjavík í kvöld. Kristall er ánægður með tíma sinn hjá Víkingi og hlakkar til að takast á við næsta verkefni.

„Þetta eru mínir síðustu leikir fyrir Víking Reykjavík. Það verður erfitt að fara en ég er einnig spenntur fyrir næsta skrefi,“ sagði Kristall Máni að lokum. 

 Myndir:

Kristall fagnaði marki sínu í fyrri hálfleikVísir/Diego

Ari Sigurpálsson í baráttunniVísir/Diego

Júlíus Magnússon átti öflugan leik á miðjunniVísir/Diego

Arnar Gunnlaugsson var í sparigallanum í leik kvöldsinsVísir/Diego

Pablo Punyed var allt í öllu í leik kvöldsinsVísir/Diego

Anthony Limbrick, þjálfari New Saints á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Diego

Logi Tómasson með fyrirgjöf í leik kvöldsinsVísir/Diego

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira