Enski boltinn

Pep staðfestir að Zinchenko sé á leið til Arsenal

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Oleksandr Zinchenko er á leið til Arsenal.
Oleksandr Zinchenko er á leið til Arsenal. Alex Gottschalk/vi/DeFodi Images via Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, hefur staðfest að Úkraínumaðurinn Oleksandr Zinchenko sé á leið til Arsenal. Zinchenko verður því annar leikmaðurinn sem Arsenal kaupir af City í sumar.

Þetta staðfesti þjálfarinn á blaðamannafundi í æfingaferð liðsins. Fyrr í sumar hafði Arsenal keypt framherjann Gabriel Jesus af Englandsmeisturunum.

„Það var gott að geta kvatt hann almennilega í gær,“ sagði þjálfarinn þegar hann var spurður út í Zinchenko.

„Því miður gátum við ekki gert það með Raheem [Sterling] og Gabriel [Jesus] af því að þá voru menn í sumarfríi. En í gær þegar við vorum að borða kvöldmat saman þá gátum við kvatt hann og svo heldur hann áfram til Arsenal.“

Zinchenko gekk í raðir Manchester City árið 2016, þá aðeins 19 ára gamall. Hann hefur því verið í herbúðum liðsins í sex ár, ef frá er talið tímabilið 2016/2017 þar sem hann var á láni hjá PSV í Hollandi.

Hann hefur leikið 76 deildarleiki fyrir liðið og unnið ensku úrvalsdeildina fjórum sinnum, FA-bikarinn einu sinni og enska deildarbikarinn fjórum sinnum.

Arsenal greiðir allt að 32 milljónir punda fyrir leikmanninn. Félagið greiðir 30 milljónir strax, en tvær milljónir gætu bæst við verðið ef ákveðnum skilyrðum er mætt. Leikmaðurinn skrifar undir samning til ársins 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×