Erlent

Starfs­­fólkið farið annað og flug­vellir haldi ekki í við flug­­fé­lögin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Olivier Jankovec er forstjóri Evrópusviðs Alþjóðasamtaka flugvalla.
Olivier Jankovec er forstjóri Evrópusviðs Alþjóðasamtaka flugvalla. Raul Urbina/Getty

Yfirmaður hjá Alþjóðasamtökum flugvalla segir stuðning við flugfélög í Covid-faraldrinum hafa verið margfalt meiri en við flugvelli. Stór hluti starfsmanna flugvalla sem sagt var upp vilji ekki snúa aftur sem víða hafi skapað miklar tafir.

Mannekla herjar á flugvelli víða um Evrópu. Það hefur leitt til langra raða og aukins tíma sem þarf til þess að komast úr innritun, inn í flugvél og á áfangastað. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af ástandinu en víða eru farþegar hvattir til þess að mæta mörgum klukkustundum fyrir brottför, í stað hinna hefðbundnu tveggja tíma sem flestir þekkja.

Forstjóri Evrópusviðs Alþjóðasamtaka flugvalla, Olivier Jankovec, segir í samtali við fréttastofu að margir sem störfuðu á flugvöllum fyrir kórónuveirufaraldurinn hafa fundið sér ný og hentugri störf, og muni ekki snúa til baka. Því þurfi að ráða nýtt fólk inn, sem sé tímafrekt.

„Mjög strangar reglur gilda um þetta starfssvið. Það þarf að þjálfa starfsmenn og þeir sem starfa á flugvöllum og flestir þeirra þurfa að sæta bakgrunnsskoðun af hálfu stjórnvalda í öryggisskyni.“

Það geti tekið allt að fjóra mánuði að koma nýju starfsfólki í gegnum bakgrunnsskoðanir.

„Þetta er mjög erfitt og við getum ekki aukið afkastegetu okkar á sama hraða og flugumferð eykst.“

Skekkja í styrkveitingum

Olivier bendir á að ríkisstuðningur við flugfélög í faraldrinum hafi verið margfaldur miðað við stuðning við flugvelli, sem hafi margir þurft að segja upp starfsfólki.

„Um var að ræða 39 milljarða evra fjárstuðning til evrópskra flugfélaga á undanförnum tveimur árum í samanburði við aðeins fjögurra milljarða evra til flugvalla. Þeir flugvellir sem fengu fjárstuðning fengu hann tiltölulega seint.“

Með auknum stuðningi við flugvelli hefði mátt koma í veg fyrir jafn slæma stöðu. Dæmi um það sé Schiphol-flugvöllur í Amsterdam, þar sem raðirnar hafa verið einkar langar. Flugvöllurinn fékk engan fjárstuðning í faraldrinum.

„Stjórn flugvallarins varð að segja hluta starfsliðs síns upp og nú er mjög erfitt að fá þetta starfsfólk til baka og auka starfsemina.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.