Rússneskir kennarar hafa fengið skilaboð um að mánaðarlaun þeirra í Úkraínu yrðu allt að sexföld hefðbundin laun kennara í Rússlandi. Þau þyrftu að fara til Zaporizhzhia- og Kherson-héraða yfir sumarið og undirbúa grunnskóla þar fyrir komandi vetur, samkvæmt frétt Washington Post.
Var því heitið að þessi svæði í Úkraínu sem um ræðir væru örugg. Einn viðmælandi WP sagði kennara þó átta sig á því að ferðir til Úkraínu hefðu ekkert gott í för með sér. Þrátt fyrir að fundu blaðamenn miðilsins vísbendingar um að fjölmargir kennarar úr einu héraði Rússlands hefðu samþykkt að fara til Úkraínu.
Annar viðmælandi Washington Post sagðist ætla að fara. Hann hefði engu að tapa þar sem hann væri skilinn og börn hans gengin úr grasi. Hann gæti því starfað lengi í Úkraínu og sérstaklega fyrir svo góð laun.
Vilja Rússavæða Úkraínu
Rússar hafa reynt af fremsta megni að „Rússavæða“ yfirráðasvæði sín í Úkraínu. Skiltum á úkraínsku hefur verið skipt út fyrir rússnesku, ríkismiðlar Rússlands eru þeir einu sem fólk hefur aðgang að og íbúar þessara svæða eru undir miklum þrýstingi varðandi það að fá sér rússnesk vegabréf.
Sergei Kravtsov, menntamálaráðherra Rússlands, sagði á fundi í lok júní að það væri gífurlega mikilvægt að hafa áhrif á menntun barna. Það væri nauðsynlegt að „leiðrétta“ menntun barna í Úkraínu.
Hann hafði áður sagt Rússa staðráðna í að kenna úkraínskum börnum sögu Úkraínu og Rússlands frá sjónarhóli Rússa.