Erlent

Íbúum í Suður-Evrópu gert að yfirgefa heimili sín vegna skógarelda

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Íbúar skammt frá Barcelona berjast við skógarelda.
Íbúar skammt frá Barcelona berjast við skógarelda. Getty

Frönsk stjórnvöld hafa fyrirskipað um sextán þúsund manns að yfirgefa heimili sín vegna hættu af skógareldum í suðvesturhluta landsins. Eldar ógna einnig svæðum á Spáni, Grikklandi og í Króatíu.

Á meðal þeirra sem hafa þurft að flýja í Frakklandi eru landverðir í Gironde héraði, en ferðamennirnir sem venjulega heimsækja héraðið í stórum stíl voru farnir fyrir nokkrum dögum. 

Á suður Spáni þurftu rúmlega þrjú þúsund að flýja Mijas hæðinar þótt sumir hafi fengið að snúa aftur en í Portúgal telja menn sig hafa náð tökum á miklum eldum sem þar hafa brunnið síðustu daga. Rúmlega þúsund dauðsföll eru rakin til hitabylgjunnar í Portúgal og á Spáni undanfarið.

Á Bretlandseyjum búa menn sig síðan undir að hitamet falli í vikunni og hafa hlutar Englands verið settir á rautt hættustig vegna hita, í fyrsta sinn í sögunni. Núverandi hitamet á Englandi var sett árið 2019 þegar hitinn náði 38,7 stigum í Cambridge, en veðurfræðingar sjá fram á að hitinn gæti náð 41 stigi á nokkrum stöðum í landinu í dag eða á morgun. 

Raunar er gert ráð fyrir að höfuðborgin London verði einn heitasti staður á jarðríki í dag, þar sem spár gera ráð fyrir að tölurnar þar fari fram úr svæðum eins og Vestur Sahara og Karabíska hafinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×