Erlent

Brustu í grát þegar hin fjögurra ára Liza var borin til grafar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Presturinn sem stýrði athöfninni brast í grát þegar hann ávarpaði viðstadda.
Presturinn sem stýrði athöfninni brast í grát þegar hann ávarpaði viðstadda. AP/Efrem Lukatsky

Yfir hundrað syrgjendur komu saman í dag við jarðarför hinnar fjögurra ára Lizu sem lést í flugskeytaárás Rússa á úkraínsku borgina Vinnytsia á fimmtudag.

Tuttugu og þrír til viðbótar fórust í árásinni en móðir Lizu særðist lífshættulega. Á fjórða tug er enn saknað.

Tilfinningarnar báru föður Lizu ofurliði þegar kistan var látin síga niður í jörðina og Vitalii Holoskevych, presturinn sem stýrði athöfninni brast í grát þegar hann ávarpaði viðstadda.

„Þeir sem drápu Lizu, aðra íbúa Vinnytsia og aðra Úkraínumenn þjóna djöflinum. Eilíf helvítisvist bíður þeirra því þeim verður ekki fyrirgefið. Og ég held að þeir séu ekki færir um að iðrast frammi fyrir guði,“ sagði Holoskevych.

Volódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur kallað árásina á Vinnytsia hryðjuverk. Selenskí var með rafrænt ávarp á ráðstefnu í Haag í vikunni þar sem hann fékk gesti til að votta þeim látnu virðingu með mínútu þögn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×