Erlent

Minnst tuttugu og tveir borgarar féllu í eldflaugaárás

Samúel Karl Ólason skrifar
Barnakerra liggur nærri staðnum þar sem minnst ein eldflaug lenti í borginni. Minnst þrjú börn dóu í árásinni.
Barnakerra liggur nærri staðnum þar sem minnst ein eldflaug lenti í borginni. Minnst þrjú börn dóu í árásinni. AP/Efrem Lukatsky

Minnst 22 létu lífið og rúmlega hundrað særðust er rússneskar eldflaugar lentu í borginni Vinnitsía, sem liggur suðvestur af Kænugarði. Ráðamenn í Úkraínu segja eldflaugunum hafa verið skotið frá kafbáti í Svartahafi og segja Rússa vísvitandi hafa gert árás á óbreytta borgara. Ekkert hernaðarlegt skotmark hafi verið á svæðinu.

Eldflaugarnar eru sagðar hafa verið af gerðinni Kalibr en Úkraínumenn segjast hafa skotið niður einhverjar af eldflaugunum sem skotið var af borginni..

52 eru á sjúkrahúsi og þar af minnst fimm í alvarlegu ástandi en 39 er saknað, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Minnst þrjú börn eru sögð vera meðal hinna látnu.

Rússar, sem halda því ranglega fram að þeir geri ekki árásir á neitt nema hernaðarleg skotmörk, hafa ekki viðurkennt árásina en Margarita Simonyan, ritstjóri rússneska ríkismiðilsins RT, sagðist í dag hafa heimildir fyrir því að árás hefði verið gerð á byggingu í Vinnitsía, því sú bygging hýsti „nasista“. Ráðamenn í Rússlandi hafa frá upphafi innrásarinnar logið því að nasistar stjórni Úkraínu.

Það að bjarga íbúum Úkraínu undan oki þessara meintu nasista er ein af mörgum ástæðum sem Rússar segja fyrir innrásinni.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, og aðrir embættismenn hafa lýst árásinni sem stríðsglæp en Rússar standa frammi fyrir fjölmörgum trúverðugum ásökunum um stríðsglæpi eins og fjöldamorð og nauðganir í Úkraínu.

Selenskí sagði á alþjóðlegri ráðstefnu í Haag, þar sem fulltrúar um fjörutíu ríkja ræða hvernig rannsaka eigi meinta stríðsglæpi Rússa í Úkraínu, að árásin hefði verið gerð á byggingu sem hýsti heilsugæslustöð og önnur hús. Þar að auki hafi kviknað í um fimmtíu bílum.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, tísti myndum af eftirmálum árásarinnar í dag. Hann sagði Rússa gera markvissar árásir á borgara til að dreifa ótta. Rússland væri hryðjuverkaríki og það þyrfti að skilgreina ríkið sem slíkt.


Tengdar fréttir

Samkomulag í höfn um útflutning kornvöru

Stjórnvöld í Tyrklandi segja samkomulag hafa náðst við Úkraínu, Rússland og Sameinuðu þjóðirnar um útflutning kornvöru frá Úkraínu. Að sögn varnarmálaráðherrans Hulusi Akar verður samkomulagið undirritað í næstu viku.

Úkraínuforseti gagnrýnir að látið sé undan hryðjuverkaríki

Úkraínuforseti gagnrýnir Kanadamenn harðlega fyrir að ætla að skila túrbínu úr Nord Stream eitt gasleiðslu Rússa, sem þar var í viðgerð, og segir það brot á refsiaðgerðum. Herinn í Úkraínu segist hafa eytt hergagnabirgðastöð Rússa með nýlega fengnum eldflaugum frá Bandaríkjamönnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×