Innlent

Sam­herji á nú aðild að fimmtungi heildar­kvótans

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og stjórnarformaður Síldarvinnslunnar. Samherji á nú aðild að 20 prósent heildarkvóta í landinu. Samkvæmt lögum má ekki fara yfir 12 prósent.
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og stjórnarformaður Síldarvinnslunnar. Samherji á nú aðild að 20 prósent heildarkvóta í landinu. Samkvæmt lögum má ekki fara yfir 12 prósent. Vísir

Með kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi á Samherji aðild að fimmtungi heildarveiðiheimilda   í landinu sem er verulega yfir lögbundnum viðmiðum. Forsætisráðherra hefur áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi, tilfærslu veiðiheimilda og auðssöfnun fárra í greininni.

Kaup Síldarvinnslunnar á Vísi hefur ekki í för með sér að sameinað fyrirtæki fari með of stóran hluta heildarkvótans í landinu samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Sameinuð fyrirtæki fara samanlagt með 11,62 prósent heildarkvótans en - hámarkið er tólf prósent. 

Samherji á 32,64 prósent hlut í Síldarvinnslunni og telst ekki tengdur aðili samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Fyrirtækið fari því ekki yfir lögbundið hámark aflaheimilda með sameiningu Síldarvinnslunnar og Vísis. 

Ef Samherji teldist hins vegar tengdur aðili samkvæmt lögum á fyrirtækið samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu  hins vegar aðild að tuttugu prósentum heildarkvótans sem er langt yfir lögbundnum viðmiðum sem eru tólf prósent.  Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er aðili ekki skilgreindur sem tengdur fyrr en hann á um og yfir fimmtíu prósent í fyrirtæki.


Þá má samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila ekki nema meira en 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla samkvæmt lögum þessum og 5. gr. laga nr. 151/1996.


Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi.

„Þetta er grundvallarástæðan fyrir því að svo margir eru ósáttir við kvótakerfið. Því að á sama tíma og við skilgreinum auðlindir hafsins sem þjóðareign, þá sjáum við samþjöppun í sjávarútvegi og gríðarlegan auð safnast á fárra manna hendur,“ segir Katrín.

Hún segir að matvælaráðherra sé nú að fara yfir reglur um gjaldtöku, tilfærslu eigna, hámarksveiðiheimildir og hvernig tengdir aðilar eru skilgreindir í sjávarútvegi. Katrín segir að þótt henni hafi ekki tekist að koma auðlindarákvæði í stjórnarskránna á síðasta kjörtímabili sé baráttunni hvergi nærri lokið.

„Ég myndi með gleði leggja slíkt ákvæði fram aftur og ég geri það mögulega síðar á þessu kjörtímabili en hins vegar þarf það ekki að standa í vegi fyrir því að við breytum lögunum um fiskveiðistjórnun þegar kemur að gjaldtöku og öðru slíku,“ segir Katrín.

Samkeppniseftirlitið á eftir að meta hvort kaup Síldarvinnslunnar á Vísi samræmist lögum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ætlar að fylgjast með niðurstöðum þess. Hann segir að samþjöppun í sjávarútvegi hafi hins vegar yfirleitt verið til góða.

„Þá hafa þær heilt yfir séð verið til þess fallnar að auka arðsemi veiðanna sem er mikilvægt fyrir þjóðarbúið í heild,“ segir Bjarni. 


Tengdar fréttir

Hafnar því að verið sé að koma kvóta milli kyn­­slóða

Forstjóri Síldarvinnslunnar er ánægður með kaup félagsins á Vísi. Fyrirtækið dansi á línunni í kvótaviðmiðum en þau muni aðlaga heimildir eftir þeim ramma sem þeim er sniðinn. Framkvæmdastjóri Vísis segir sameiningu fyrirtækjanna fela í sér eflingu starfseminnar og hafnar því að með sölunni sé verið að koma kvóta til næstu kynslóða.

Hvert barn fær um 3,3 milljarða í sinn hlut fyrir Vísi

Síldarvinnslan í Neskaupsstað hefur keypt allt hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi í Grindavík. Kaupverðið er tuttugu milljarðar króna og yfirtekin lán ellefu milljarðar króna. Eigendur Vísis fá sex milljarða greitt í reiðufé og eignast átta prósenta hlut í SíldarvinnslunniAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.