Í morgun fauk trampólín úr garði og út á götu við Lækjarvað í Árbæ og í Hafnarfirði fauk fellihýsi þvert yfir götuna Eyrartröð.
Þetta staðfestir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, við fréttastofu. Báðar tilkynningar bárust um níuleytið í morgun.
Í kjölfarið sendi samskiptadeild lögreglu út þessa tilkynningu á Facebook:
Við erum nú ekki vön að þurfa að setja svona tilkynningu út á þessum árstíma. Við viljum helst hafa sumarblíðu þessa...
Posted by Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu on Thursday, 7 July 2022
„Við erum nú ekki vön að þurfa að setja svona tilkynningu út á þessum árstíma. Við viljum helst hafa sumarblíðu þessa dagana, það er ekki flóknara,“ segir í tilkynningunni.
„En það er suðvestan hvassviðri á höfuðborgarsvæðinu og trampólín, hjólhýsi og garðhúsgögn eru víða á fleygiferð. Við biðjum því fólk að huga að lausamunum til að koma í veg fyrir foktjón.“
Sækja ferðamenn upp á Fimmvörðuháls
Björgunarsveitir hafa þá verið kallaðar út að sækja tvo ferðamenn á Fimmvörðuháls. Þetta staðfestir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
Þeir höfðu gist í tjaldi í nótt á gönguleiðinni og voru orðnir svo kaldir og hraktir í morgun eftir nóttina að þeir treystu sér ekki til að ganga niður að bílum sínum, að sögn Davíðs.