Enski boltinn

Richarlison byrjar Tottenham ferilinn í leikbanni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Richarlison fagnar eftir að hafa skorað fyrir Everton á móti Chelsea.
Richarlison fagnar eftir að hafa skorað fyrir Everton á móti Chelsea. EPA-EFE/PETER POWELL

Tottenham keypti á dögunum brasilíska framherjann Richarlison frá Everton en hann verður ekki með Tottenham liðinu í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Hinn 25 ára gamli Brassi hefur nefnilega verið dæmdur í eins leiks bann fyrir að kasta blysi sem stuðningsmenn Everton hefðu kastað inn á völlinn eftir mikilvægan 1-0 sigur Everton á Chelsea á Goodison Park.

Það er stanglega bannað að kasta blysum inn á völlinn og það kostar svona refsingu fyrir leikmenn að taka þau upp og kasta þeim eitthvert annað.

Richarlison fékk ekki aðeins leikbann því hann fékk einnig sekt upp á 25 þúsund pund eða rúmar fjórar milljónir króna.

Everton liðið var í mikilli fallhættu á síðustu leiktíð og sigurinn á Chelsea var mjög dýrmætur í baráttunni fyrir áframhaldandi sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Richarlison var með 10 mörk og 5 stoðsendingar fyrir Everton á leiktíðinni og gerði nóg til að sannfæra Tottenham um að kaupa hann fyrir sextíu milljónir punda.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.