Erlent

Heard vill úrskurðinn gegn sér felldan niður

Samúel Karl Ólason skrifar
Johnny Depp og Amber Heard.
Johnny Depp og Amber Heard. AP

Lögmenn leikkonunnar Amber Heard hafa farið fram á það við dómara að úrskurðurinn í máli Johnny Depps, fyrrverandi eiginmanns hennar, gegn henni verði felldur niður og ný réttarhöld fari fram. Hún var nýverið dæmd til að greiða honum tæpar tvo milljarða króna í skaðabætur fyrir meiðyrði.

Krafan byggir á því að sönnunargögn hafi ekki stutt úrskurðinn í áðurnefndu máli og að einn kviðdómenda hafi mögulega ekki raunverulega átt að vera í kviðdómnum.

Þar að auki segja lögmennirnir að skaðabæturnar hafi verið of háar, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar, en blaðamenn AP hafa komið höndum yfir kröfuna.

Depp stefndi Heard fyrir meiðyrði og krafðist fimmtíu milljóna dala í miskabætur, sem samsvarar um 6,5 milljörðum íslenskra króna. Stefnan beinist að grein sem Heard skrifaði og birtist í Washington Post árið 2018 þar sem hún sagðist vera orðin táknmynd þeirra sem hafi lifað við heimilisofbeldi.

Heard var dæmd til að greiða honum tíu milljónir dala í miskabætur og fimm milljónir dala í refsibætur. Heard mun þó aðeins þurfa að greiða honum 350 þúsund dali í refsibætur þar sem það er hámark refsibóta í Virginíu, þar sem málaferlin fóru fram.

Réttarhöldin voru sýnd í beinni útsendingu á netinu og vöktu þau gríðarlega mikla athygli á heimsvísu.

Ítarlega má lesa um niðurstöður kviðdómenda hér að neðan.

Lögmenn Heard segja að með réttu hefði Depp þurft að sýna fram á að hann hefði aldrei beitt Heard ofbeldi og sömuleiðis sanna að þegar hún skrifaði áðurnefnda grein, hefði hún ekki trúað því sjálf að hún hefði verið beitt ofbeldi.

Þeir segja hvorugt hafa verið sannað í réttarhöldunum. Þvert á móti hafi sönnunargögn réttarhaldanna stutt mál Heard.

Að endingu segja lögmennirnir að einn meðlimur kviðdómsins í réttarhöldunum hafi lagt fram gögn um að hann væri fæddur 1945. Hins vegar gefi opinber gögn til kynna að viðkomandi hafi fæðst árið 1970.

Lögmennirnir segja það vekja upp spurningar um hvort viðkomandi hafi yfir höfuð fengið boð til kviðdómssetu eða hafi villt á sér heimildir. Það þurfi að rannsaka.


Tengdar fréttir

Heard ætlar að áfrýja

Amber Heard ætlar að áfrýja dómi í máli Johnny Depp á hendur henni. Í gær var hún fundin sek um meiðyrði í garð hans og dæmd til að greiða fyrrverandi eiginmanni sínum fimmtán milljónir dollara.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.