Erlent

Náðuð 27 árum eftir að hún myrti manninn sem seldi hana í vændi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sara Kruzan var náðuð síðastliðinn föstudag, 27 árum eftir að hún var dæmd fyrir morðið á George Howard, sem misnotaði hana og seldi í vændi.
Sara Kruzan var náðuð síðastliðinn föstudag, 27 árum eftir að hún var dæmd fyrir morðið á George Howard, sem misnotaði hana og seldi í vændi. Samsett

Sara Kruzan var náðuð síðastliðinn föstudag, 27 árum eftir að hún var dæmd fyrir morðið á Georg Howard sem misnotaði hana og seldi í vændi. Kruzan var sextán ára þegar hún drap Howard og aðeins sautján ára þegar hún hlaut lífstíðardóm fyrir morðið.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, náðaði Söru Kruzan á föstudag en hún var dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á George Howard árið 1995 þegar hún var sautján ára. 

Á sínum tíma var Kruzan sótt til saka sem fullorðinn einstaklingur þrátt fyrir að hafa verið einungis sextán ára gömul þegar hún myrti Howard á mótelherbergi. Howard kynntist Kruzan þegar hún var ellefu ára og tók hann þá að sér föðurhlutverk í lífi hennar en frá því hún var þrettán ára seldi hann hana í vændi.

Berst fyrir breyttu réttarkerfi

Árið 2011 var fangelsisdómur Kruzan styttur niður í 25 ár með möguleika á reynslulausn af Arnold Schwarzenegger, þáverandi ríkisstjóra Kaliforníu.

Þegar hún var loks látin laus úr fangelsi árið 2013 hafði hún setið inni í fangelsi í átján ár. Frá því hún losnaði úr fangelsi hefur hún verið mikil baráttukona fyrir breytingum á því hvernig bandaríska réttarkerfið tekur á málum barna.

Í samtali við Los Angeles Times á sunnudag sagði Kruzan að hún hafi fundið fyrir létti þegar hún heyrði af ákvörðun ríkisstjórans sem hefði „losað þessar ósýnilegu keðjur sem ég gerði mér ekki grein fyrir að væru enn kræktar í [mig].“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×