Umfjöllun og viðtöl: KR - Víkingur 0-3 | Meistararnir unnu öruggan sigur í Vestur­bænum

Jón Már Ferro skrifar
Halldór Smári getur ekki hætt að skora.
Halldór Smári getur ekki hætt að skora. Vísir/Hulda Margrét

Íslandsmeistarar Víkings unnu einkar öruggan 3-0 sigur á KR er liðin mættust vestur í bæ í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Halldór Smári Sigurðsson skoraði þriðja mark Víkings en þetta var hans fyrsta mark í efstu deild. 

Fyrsta markið kom úr víti. Vítið kom upp úr því að Viktor Örlygur fer fram hjá Kennie við endamörk KR-inga. Kennie virtist grípa í aðra hönd Viktors. Við það fer Viktor niður, snertingin var ekki mikil en að minnsta kosti næg til að Ívar Orri benti á punktinn. 

Annað markið kom úr aukaspyrnu Pablo Punyed. Beitir Ólafsson, markmaður KR-inga, bjóst við fyrirgjöf en Pablo setti boltann uppi í nær hornið. Þriðja mark leiksins kom eftir hornspyrnu. KR-ingar koma boltanum ekki frá, þess í stað dettur boltinn fyrir Halldór Smára sem leggur boltann fyrir sig og í netið.

Leikurinn var mikill barningur af hálfu beggja liða. KR-ingar virtust hafa yfirhöndina til að byrja með en það snérist við eftir að gestirnir fengu vítið. Eftir að Víkingar komust yfir voru sóknir KR-inga ekki mikið að ógna Víkingum sem virtist líða vel án boltans. 

Sóknarleikur KR var fyrirsjánlegur og þegar Víkingar bættu við öðru marki sínu var brekkan mjög brött fyrir heimamenn. Sigurinn var svo endanlega kominn á 82.mínútu þegar síðasta markið kom.

Af hverju vann Víkingur?

Víkingar sýndu mikla ró þegar KR-ingar settu þá undir pressu í upphafi leiks. Gestirnir skoruðu þrjú mörk en það var sennilega varnarleikur Víkinga sem skóp þennan sigur. Þeir vörðust oft vel inni í sínum eigin teig.

Hverjir stóðu upp úr?

Varnarleikur Víkinga stóð upp úr í heild sinni. Þurftu oft að verjast inni í eigin teig þegar KR gaf boltann fyrir markið. Einni var Þórður Ingason, markmaður Víkinga mjög flottur í leiknum.

Hvað gekk illa?

KR-ingum gekk illa að opna Víkinga þegar þeir voru með boltann. Enduðu oftar en ekki á fyrirgjöfum utan af kanti. KR fékk hinsvegar færi til að koma boltanum yfir línuna en varnarmenn Víkinga hentu sér fyrir það oftar en ekki.

Hvað gerist næst?

Bæði lið spila í Evrópu. KR spilar í Sambandsdeildinni úti í Póllandi á móti Pogon Szcecin. Víkingar fara til Svíþjóðar og spila við Malmö FF.

Þetta er bara endurtekin saga

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.Vísir/Diego

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR kom í viðtal strax eftir leikinn og var eðlilega ósáttur með niðurstöðu leiksins. Hann var spurður út í dómara leiksins sem dæmdi vítaspyrnu á þá.

„Ég vil ekki ræða hann. Við höfum lent í þessu oft í sumar og þetta er bara endurtekin saga, því miður,“ sagði Rúnar.

Rúnar vill meina að þeir séu ekki að nýta sénsana sína nægilega vel það sem af er sumri. Á því var framhald í kvöld.

„Það er bara önnur saga sem er mjög svipuð í sumar, við erum búnir að búa til færi og gerum það hér í upphafi leiks erum mjög hættulegir í byrjun og langt fram í lok fyrri hálfleiks en við nýtum ekki sénsana okkar og skorum ekki. Gefum svo vítaspyrnu sem er bara einstaklingsmistök af okkar hálfu. Kennie á að vera búinn að setja boltann út af í innkast. Svo sé ég ekkert hvað gerist í aðdragandanum á vítinu sem dæmt er og ætla ekkert að rengja þann dóm.“

Rúnar telur að varnarleikur KR sé vandamál á þessu tímabili.

„Við erum búnir að fá jafn mörg mörk á okkur núna og á öllu síðasta tímabili. Við erum varla hálfnaðir núna og erum búnir að fá á okkur jafn mörg mörk. Varnarleikur okkar hefur ekki verið góður.“

KR-ingar gefa mikið af fyrirgjöfum og gerðu það einnig í dag.

„Við gerðum það í dag á móti þessu Víkingsliði sem pressar hátt, þá vildum við koma spila yfir þá, komast þannig innfyrir þá. Reyna að þrýsta þeim að eigin marki. Að mörgu leiti erum við að senda boltann fyrir aðeins of snemma og við getum lagað það en við eigum líka fullt af fyrirgjöfum úr góðum stöðum.“

Seinni hálfleikur var frábær frammistaða

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga var ákveðinn eftir leik og hafði eitt og annað að segja um leik sinna manna eftir sigurinn. Arnar var spurður út í taktíkina.

„Hún á að vera þriggja manna en hún var fimm manna fyrstu 25 mínúturnar, vegna þess að KR-ingar voru sterkir, pressuðu okkur vel, voru beinskeittir og miklu aggressivari en við, unnu alla seinni bolta og við voru bara soft and shit í fyrstu 23 mínúturnar.“

„Eftir vítið þá róuðust menn aðeins niður og sáu alveg fram á það var hægt að spila fótbolta. Seinni hálfleikur var frábær frammistaða. Það var bara leikur tveggja hálfleika, seinni hálfleikur var virkilega flott framistaða hjá okkar strákum og allir stigu upp. Ég var ekki sáttur í hálfleik, langt frá því þótt við vorum 0-1 yfir. Lét bara menn heyra það og þeir áttu það skilið. Þú mætir ekkert hérna á þennan völl og spila fyrstu 25.mínúturnar eins og við gerðum,“ sagði ákveðinn Arnar Gunnlaugs.

Kyle Mc Lagan, varnarmaður Víkinga meiddist í leiknum og fór í burtu með sjúkrabíl.

„Því miður fyrir hann er eins og hann hafi brotið viðbeinið. Því miður fyrir hann, í fyrsta lagi er það náttúrulega mjög svekkjandi fyrir hann og gríðarlegur missir fyrir okkur, afþví að hann er búinn að vera mjög öflugur fyrir okkur í sumar,“ sagði Arnar um meiðsli þess Bandaríska.

Arnar svaraði því hvernig þeir brugðust við í kjölfarið.

„Við brugðumst bara mjög vel við í þessum leik við að missa hann. Við fórum í 4-3-3, við kunnum vel við okkur í því kerfi. Varðandi hann, hann er svo mikill íþróttamaður, sterkur í návígum og Svíarnir eru stórir og sterkir þannig hans verður sárt saknað.“


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.